Tekjur bandaríska flugfélagsins Delta námu 13,8 milljörðum Bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur 1.900 milljörðum króna. Tekjurnar þykja marka endurkomu flugfélaga í Bandaríkjunum eftir erfið Covid ár í flugrekstri, að því er kemur fram í grein Bloomberg.
Delta er fyrsta stóra bandaríska flugfélagið til að gefa út uppgjör fyrir annan ársfjórðung, en á komandi vikum má vænta uppgjörs frá United Airlines, American Airlines og Southwest Airlines. Michael Linenberg, sérfræðingur hjá Deutsche Bank, áætlar að tekjur ellefu stærstu bandarísku flugfélaganna muni nema 53 milljörðum dala á öðrum ársfjórðungi. Jafnframt segir hann að hagnaður félaganna fyrir skatt muni nema 4,2 milljörðum dala á sama tímabili.
Hagnaður Delta á ársfjórðungnum nam 1,44 dölum á hlut, en sérfræðingar höfðu að meðaltali spáð fyrir um hagnað upp á 1,64 dali á hlut. Flugfélagið áætlar jafnframt að það muni hagnast heilt yfir á árinu 2022.
Gengi hlutabréfa Delta lækkaði um 6,8% við opnun markaða í New York í gær. Gengið stendur í tæplega 30 dölum á hlut og er tvöfalt lægra en fyrir faraldur.
Sjá einnig: Delta berst við Ómíkron
Delta barðist við Ómíkron faraldurinn í byrjun árs 2022, sem varð til þess að flugfélagið tapaði um 940 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi. Tekjur félagsins námu 9,35 milljörðum dala, þriðjungi lægra en á öðrum ársfjórðungi.