Hugbúnaðarfyrirtækið dk hugbúnaður og netöryggisfyrirtækið Syndis undirrituðu á dögunum samstarfssamning um innleiðingu öryggislausna Syndis í hýsingarumhverfi dk.

Samstarfið, felur í sér þróun og innleiðingu á nýjum öryggislausnum Syndis sem munu auka öryggi viðskiptavina dk enn frekar.

„Það er mjög ánægjulegt að undirrita þennan samstarfssamning við Syndis. Með yfirburða þekkingu þeirra á netöryggi teljum við að eitt mesta verðmæti okkar viðskiptavina, sem eru gögnin þeirra, verði enn öruggari í okkar höndum. Við höfum því miður séð nýlega mjög slæm dæmi í okkar geira þar sem tilraunir til innbrota hjá hýsingaraðila hafa tekist með mjög slæmum afleiðingum fyrir bæði fyrirtækið og þeirra viðskitpavini, “ segir Trausti Sveinbjörnsson, sviðssjtóri hýsingarsviðs dk, í tilkynningu.

dk hugbúnaður hefur selt einn vinsælasta viðskiptahugbúnað landsins í yfir aldarfjórðung, alhliða viðskipta- og upplýsingakerfi sem er þróað á Íslandi fyrir íslenskar aðstæður. Í dag eru notendur þess um 11.000 hér á landi úr flestum atvinnugreinum og fjölgar ört. Hýsingarþjónusta dk hugbúnaðar er ein sú stærsta í landinu og eru yfir 31.000 fyrirtæki í hýsingu hjá fyrirtækinu.

Syndis er meðal stærstu netöryggisfyrirtækja landsins. Sérfræðingar Syndis bjóða upp á háþróaðar öryggislausnir og ráðgjöf sem hjálpa fyrirtækjum að greina, verjast og bregðast við sífellt flóknari netógnum. Syndis veitir m.a. mannaða sólarhrings vöktun í gegnum öryggisvöktun sína (Security Operations Center).

„Við hjá Syndis erum stolt af því að vinna með dk hugbúnaði að því að styrkja öryggi íslenskra fyrirtækja. dk leggur mikla áherslu á öryggi gagna sinna viðskiptavina og þetta samstarf sýnir vel þá framsýni sem fyrirtækið hefur í öryggismálum. Við hlökkum til að nýta okkar sérþekkingu til að vernda gögn og innviði dk og þar með viðskiptavina þeirra,” segir Anton Már Egilsson, forstjóri Syndis.