Fjármálastjóri Ryanair, Neil Sorahan, hefur gagnrýnt stóra flugvelli í Evrópu harðlega fyrir að hafa ekki undirbúið sig betur fyrir endurkomu farþega í vor og segir að draga þurfi þá til ábyrgðar fyrir ástandið sem nú er uppi.
Flugvellir í Evrópu hafa átt í miklum erfiðleikum og mönnunarvanda eftir að fluggeirinn tók við sér í vor. Ástandið hafur haft í för með sér miklar tafir og flugfélög hafa þurft að fella niður þúsundir áætlunarfluga.
„Þú verður að draga flugleiðsöguþjónustur og ýmis stjórnvöld til ábyrgðar fyrir að vera ekki búið að manna stöður,“ sagði Sorahan við BBC.
„Það sama á við um flugvellina sjálfa, þeir voru með eitt verkefni og það var að tryggja að það yrðu nægjanlega margir hlað- og öryggisgæslumenn. Þeir voru með áætlunina mánuði fram í tímann.“
Sorahan varaði einnig við því að farþegar þurfi sennilega að venjast dýrari fargjöldum.
„Eldsneytisverð hefur farið úr 40 dölum í yfir 100 dali á tunnu. Það er því ekki raunhæft að bjóða áfram upp á sömu kjör í þessu umhverfi,“ sagði Sorahan við Financial Times. „Dagar 9,99 evru fargjalda eru líklega senn taldir.“
Ryanair flutti 45,5 milljónir farþega á öðrum ársfjórðungi og júnímánuður var sá annasamasti í sögu félagsins. Írska flugfélagið hagnaðist um 170 milljónir evra, eða sem nemur 24 milljörðum króna, á tímabilinu apríl-júní , samanborið við 273 milljóna evra tap á sama tíma í fyrra.