Fjármálastjóri Oceanic Enterprises, dótturfélags Umami Sustainable Seafood, hefur játað að hafa dregið sér tæplega 1,1 milljón dala, andvirði um 130 milljóna króna, en Umami var á þessum tíma undir stjórn Óla Vals Steindórssonar.
Greint er frá þessu í DV í dag, en í fréttatilkynningu frá skrifstofu alríkissaksóknara í S-Kalíforníu, segir að á tveggja og hálfs árs tímabili hafi Jaime Cuadra dregið sér fé af reikningum Oceanic og notað til að fjármagna fótboltadeild sem hann var í forsvari fyrirtæki, en einnig til eigin nota.
Cuadra starfaði hjá Oceanic allt fram til febrúar á þessu ári, en meðal þess sem hið stolna fé fór í var leiga á Porsche Cayenne bíl, ferðir og uppihald og kaup á listmunum, tískufatnaði, tölvum og miðum á íþróttakappleiki.
Cuadra hefur viðurkennt að hafa dregið sér féð og að hafa falsað bæði reikninga Oceanic og eigin skattframtöl til að fela slóð sína. Cuadra á yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsisdóm og allt að 500.000 dala sekt til viðbótar við féð sem hann þarf að greiða til baka til Oceanic og skattsins. Í ljósi þess að hann hefur viðurkennt brot sín má þó ætla að hann fái mildari dóm. Dómurinn í málinu verður kveðinn upp þann 23. september næstkomandi.
Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um áður missti Óli Valur fyrirtækið Umami um síðustu áramót í því sem hann kallar óvinveitta yfirtöku. Búið er að segja upp flestum toppunum í Umami eða þeir farnir annað eftir að rekstrarerfiðleikar blöstu við fyrirtækinu um síðustu áramót. Þar á meðal er Óli Valur sem hætti skyndilega í desember eftir að hafa stjórnað stofnun og uppbyggingu fyrirtækisins frá árinu 2010.
Hluti lánardrottna í Umami gerði veðkall í desember síðastliðnum þegar forsendur lánasamninga höfðu brostið. Við það eignaðist Róbert Guðfinnsson, athafnamaður sem nú er búsettur á Siglufirði, 11,7% í félaginu eða sjö milljónir hluta. Japanskt dreifingarfyrirtæki fyrir sjávarafurðir eignaðist andvirði 21,8% hlutafjár með sama hætti tíu dögum síðar í desember. Eftir þetta átti Róbert samanlagt 16,8% í félaginu.