Í skýrslu starfshóps um arðsemi og gjaldtöku viðskiptabankanna kemur fram að afkoma bankanna hafi batnað til muna á síðustu árum og arðsemi eigin fjár sé meiri hjá íslensku bönkunum en hjá sambærilegum bönkum á Norðurlöndunum, 10,7% samanborið við 9,6%.

Sjálf hefur viðskiptaráðherra talað um ofurhagnað íslensku bankanna og talað fyrir hvalrekaskatt, þó það hafi ekki fallið í kramið hjá öðrum í ríkisstjórn.

„Þeir högnuðust mikið en þeir eru bara fyrst núna að ná eðlilegri arðsemi miðað við hversu mikið fjármagn er í bankakerfinu,“ segir Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Árin fyrir faraldur var arðsemin arfaslök.

„Stýrivextir eru 9,25%, miðað við það þá væri eðlileg ávöxtun eigin fjár 14% og ef við erum að miða við ríkisbréfin þá værum við að tala um 12%. Þannig 11% uppfyllir ekki einu sinni eðlilega ávöxtunarkröfu miðað við þessar forsendur.“

Hvað hugmyndir um hvalrekaskatt varða segist Már eiga bágt með að sjá að innistæða sé fyrir slíku. Bankarnir greiði þegar háar upphæðir í sérstaka skatta og gjöld.

Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Þeir greiddu í fyrra sex milljarða króna í sérstakan bankaskatt til ríkisins. Ef það yrði farið aftur í þennan gamla skatt þá væri áhugavert að sjá greiningu á því hver arðsemi bankanna yrði. Þá væri hún bara farin að nálgast arðsemi af ríkisskuldabréfum og þá eru komin rök fyrir því að það sé búið að ríkisvæða bankakerfið bakdyra megin,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á föstudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.