Tolla­stefna Donalds Trump, sem nú felur í sér um­fangs­miklar við­skiptaþvinganir gegn helstu við­skiptaríkjum Bandaríkjanna, byggir á tveimur megin­mark­miðum: Að draga úr við­skipta­halla og að örva fjár­festingu í bandarískum iðnaði. Í ítar­legri greiningu The Wall Street Journal á áhrifum stefnunnar segir að þótt mörgum finnist þessi mark­mið skiljan­leg og jafn­vel verðug, hafi fæstir íhugað hverjir muni í reynd greiða reikninginn.

Efna­hags­legt jafn­vægi í þjóðar­bú­skap Bandaríkjanna byggist á því að við­skipta­halli landsins er jafnaður út með inn­flæði er­lends fjár­magns.

Bandaríkja­menn hafa árum saman flutt inn fleiri vörur og þjónustu en þeir hafa selt út og sá halli hefur verið fjár­magnaður með því að er­lendir aðilar kaupa bandarískar eignir: ríkis­skulda­bréf, hluta­bréf og beinar fjár­festingar.

En ef tolla­stefna Trumps dregur úr inn­flutningi og minnkar þar með við­skipta­hallann, þá dregur jafn­framt úr þörfinni, og svigrúminu, fyrir er­lendar fjár­festingar.

Sam­dráttur í inn­flæði fjár­magns til að mæta minnkandi við­skipta­halla getur þýtt að Bandaríkin neyðist til að hækka vexti til að tryggja eftir­spurn eftir ríkis­skulda­bréfum. Seðla­bankinn getur ekki látið markaðinn standa eftir með ófjár­magnaðar skuldir, og hærri vextir verða nauð­syn.

Þessi þróun mun einnig hækka fjár­magns­kostnað fyrir­tækja og þrýsta á hluta­bréfa­markaðinn, þar sem fjár­festar flytja fjár­magn úr áhættusömum eignum yfir í öruggari vaxta­berandi verðbréf.

Hluta­bréfa­verð og bandaríkja­dalur

Trump hefur lengi talað fyrir endur­reisn bandarísks iðnaðar og dregið úr vægi fjár­mála- og tækni­geirans. Í þeirri við­leitni er hætt við að hann fæli burt það er­lent fjár­magn sem hingað til hefur stutt við verð­myndun á hluta­bréfa­markaði. Ef minna fjár­magn rennur í hluta­bréf má búast við verðlækkunum og hreyfingum sem geta haft keðju­verkandi áhrif á fjár­festingarákvarðanir, eftir­spurn eftir nýju hluta­fé og verðmati fyrir­tækja.

Auk þess getur veikara fjár­magns­streymi dregið úr eftir­spurn eftir bandarískum dollar, sem hefur fram að þessu notið stöðu sem örugg höfn fjár­festa. Óvissa um réttarríki, gagnsæi og pólitískt sjálf­stæði stofnana, þar á meðal Seðla­bankans, dregur úr trausti alþjóð­legra aðila og minnkar líkur á áfram­haldandi hlut­verki dollars sem alþjóð­legs vara­gjald­miðils.

Neikvæð áhrif á neyt­endur

Með hærri tollum fylgja hækkanir á verði inn­fluttra vara, sem þýðir lægri kaup­mátt neyt­enda og minni fjöl­breytni í vöruúr­vali. Jafn­framt hefur Trump að miklu leyti horft fram hjá því að bandarískur þjónustuút­flutningur er sam­keppnis­hæfari en iðnaðar­vörur. Ef önnur ríki auka innan­lands­neyslu í kjölfar þrýstings frá Bandaríkjunum – eins og kann að vera til­fellið í Þýska­landi eða Kína – er óvíst hvort þau velji að versla bandarískar iðnaðar­vörur, frekar en þjónustu, orku eða land­búnaðar­afurðir.

Áherslan á að færa fram­leiðslu­störf aftur heim til Bandaríkjanna, á borð við fata­saum frá Bangla­dess eða Kambódíu, kann að koma illa niður á fram­leiðni og tækni­fram­förum til lengri tíma. Efna­hags­legt for­skot Bandaríkjanna hefur ein­mitt byggst á því að yfir­gefa lágt lág­fram­leiðni fyrir flóknari, þekkingar­frekari geira.

Hver borgar?

Þegar upp er staðið kann þessi stefna Trumps að draga til baka þá alþjóð­legu stöðu sem Bandaríkin hafa byggt upp síðustu ára­tugi. Að flytja inn sparnað, byggja á sterku gengi dollars og nýta sér þverþjóð­lega verðmæta­sköpun hefur veitt Bandaríkjunum mikil þægindi – en stefna Trumps stefnir því öllu í hættu.

Ef inn­lend fram­leiðsla eykst á kostnað hag­kvæmni og sam­keppni, og neyt­endur þurfa að borga meira fyrir minna, má með sanni segja að það verði al­menningur og fjár­festar sem greiða raun­veru­legt verð fyrir pólitísk mark­mið for­setans.