Eftirspurnin eftir ullarsængum, sem og öðrum vörum sem Ístex framleiðir og selur undir merkinu Lopidraumur, hefur verið mikil undanfarin ár og viðskiptavinir virðast mjög ánægðir að sögn Sigurðar Sævars Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Ístex. Eftirspurnin einskorðast þó ekki við Ísland en fyrirtækið selur til að mynda sængur og sængurull til annarra landa.

„Tveir af stærstu sængurframleiðendunum í Evrópu hafa verið að kaupa sængurullina af okkur. Þetta hefur því verið svona aukamarkaður sem hefur fylgt okkar sængursölu, sem er mjög spennandi. Við erum með vöruhús í Hollandi til að geta afhent beint til viðskiptavina í Evrópu,“ segir Sigurður en fyrirtækið hefur einnig komist að samkomulagi við dreifingaraðila í Finnlandi.

Ýmislegt er á teikniborðinu, þar á meðal að framleiða fleiri tegundir af koddum og vottaðar ungbarnasængur.

„En það sem skiptir eiginlega mestu máli er þessi liðsheild. Það eru margir sem koma að þessu ferli. Þetta er margslungin vöruþróun með verkfræðingum, hönnuðum, framleiðendum og öðrum bæði hérlendis og erlendis,“ segir Sigurður.

„Svo er það markaðssetningin, við hjá Ístex erum heppin að hafa klárt fólk sem er tilbúið að prófa spennandi hluti. Sagan þarf að halda áfram, hlutir geta verið fljótir að breytast sérstaklega í markaðsmálum og annað slíkt. Það er því nauðsynlegt að vera á tánum. Ull er gull!“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á föstudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.