Mikið hefur verið rætt um símtal sem Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður á Logos, og Eggert Hilmarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings í Lúxemborg, áttu skömmu áður en bankinn féll á haustmánuðum 2008. Í dómi sínum í Al-Thani málinu ályktaði Hæstiréttur Íslands að í símtalinu væri átt Ólaf Ólafsson, sakborning í málinu, þegar Bjarnfreður talaði um „Óla“ nokkurn, en Ólafur var dæmdur til fjögurra ára fangelsisvistar samkvæmt dómnum. Var niðurstaðan meðal annars byggð á símtalinu umtalaða.
Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs, segir að Hæstiréttur hafi farið mannavillt og í símtalinu hafi verið rætt um lögfræðinginn Ólaf Arinbjörn Sigurðsson, sérfræðing í lögum um kauphallarviðskipti, en ekki Ólaf Ólafsson. Bjarnfreður heldur því sjálfur einnig fram, eins og fram kom í samtali hans við Viðskiptablaðið á þriðjudag .
„Það sem að liggur fyrir er að ég talaði við Ólaf Arinbjörn Sigurðsson lögfræðing á þessum tíma. Það liggja fyrir vitnaskýrslur um það. Ég spyr hann hvort það þurfi að flagga viðskiptunum, og svo ræðum við saman aftur og ég fer yfir það hvort það þurfi að flagga þegar um er að ræða arðgefandi lán, og við komumst að þeirri niðurstöðu að það þurfi ekki í hvorugu tilfellinu,“ sagði Bjarnfreður.
Ragnar Hall, fyrrverandi verjandi Ólafs, sagði einnig í samtali við Viðskiptablaðið að augljóslega væri átt við Ólaf Arinbjörn og enginn vafi væri á að þessi misskilningur Hæstaréttar hefði ráðið úrslitum um sakfellingu Ólafs Ólafssonar. Björn Þorvaldsson saksóknari, sem flutti málið fyrir hönd ákæruvaldsins, segir hins vegar að það sé algjörlega öruggt að átt hafi verið við Ólaf Ólafsson.
Viðskiptablaðið hefur undir höndum lögregluskýrslur frá yfirheyrslum sérstaks saksóknara yfir Eggerti, sem var hinn aðili símtalsins, en þær fóru fram við rannsókn málsins.
„Ólafur Arinbjarnarson, sérfræðingur á verðbréfamarkaðssviði“
Við yfirheyrslurnar var Eggert meðal annars spurður út í aðkomu sína í málinu gagnvart Bjarnfreði Ólafssyni. Segist hann hafa rætt við Bjarnfreð þar sem hann starfað fyrir Ólaf Ólafsson og þeir hafi rætt skipurit í kringum viðskiptin og flöggunarskyldu. Við yfirheyrsluna, sem átti sér stað 22. júní 2009, segir Eggert að Bjarnfreður hafi ráðfært sig við ráðgjafa innanhús hjá Logos, en Bjarnfreður er lögmaður á stofunni. Segir hann ráðgjafa Bjarnfreðar heita Ólaf Arinbjarnarson, en Bjarnfreður heldur því fram að þar sé átt við Ólaf Arinbjörn Sigurðsson.
Eggert segir orðrétt:
„Ég man eftir allavega, ég held það hafi verið út af, man ekki hvernig það var nákvæmlega, en hann virtist hafa leitað til einverra ráðgjafa innanhúss, af því hann kom til baka og svaraði mér því að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af þessu máli. Þannig að mig minnir svona að hann hafi nefnt á nafn, hvort það sé rétt hjá mér Ólafur Arinbjarnarson, sem var sérfræðingur á verðbréfamarkaðssviði, eitthvað þannig, minnir eins og hann hafi nefnt það nafn, hann nefndir allavega einhvern á nafn þarna innan Logos, sem að væri sérfróðari en hann í þessum efnum og kom svo til bara og sagði að þetta væri clear.“
Bjarnfreður gerði innanhúskönnun hjá Logos
Eggert mætti aftur til skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara þann 14. október 2011. Þar er hann meðal annars spurður út í aðkomu Ólafs Ólafssonar að viðskiptunum. Þá segir Eggert:
„Ég, mér fannst þetta ekki alveg, alveg svona nógu kristaltært í mínum huga þannig að ég óskaði eftir skýringum frá, frá Bjarnfreði ef ég man rétt. Það var í síma, þetta er aðallega í síma. Það var eitthvert email-brot sem að fór þarna á milli, hvort hann væri ekki tilkynningarskyldu út af þessum viðskiptum. Í rauninni m.t.t. tengingarinnar í þetta. Og þau svör sem að ég fékk til baka eftir að látin var gera innanhússkönnun hjá Logos um það að miðað við þetta setup og annað þá væri hann það ekki.“
Í kjölfarið er Eggert spurður að því hver hafi séð um umrædda athugun hjá Logos. Svar Eggerts er eftirfarandi: „Æ ég held ég hafi sagt þetta áður hérna, Ólafur er hann ekki Arinbjarnarson. Mig minnir að Bjarnfreður hafi sagt að hann hafi, hann var sérfræðingur í verðbréfarétti og ég held að það hafi verið rætt.“