Eimskip sakaði SKE um lögbrot með því að krefjast svara við ásökunum án þess að gefa þeim aðgang að málsgögnum. Þegar gögn voru loks afhent komu ýmsir vankantar í ljós.
Í andmælaskjölum Eimskips við frumniðurstöðum Samkeppniseftirlitsins sakar skipafélagið SKE um að hafa brotið lög með því að gefa út tvö andmælaskjöl, krefjast svara við ásökunum áður en þær eru að fullu komnar fram og að félagið hafi fengið aðgang að gögnum máls.
Þegar öll gögn voru á endanum afhent kom ýmislegt í ljós í rannsókn eftirlitsins á meintu samráði Eimskips og Samskipa á árunum eftir hrun.
Eimskip sendi ítarleg og rökstudd andmælaskjöl til eftirlitsins í mars og júní 2020 þar sem félagið sagði rangfærslur og annmarka á rannsókninni óteljandi. Ári síðar ákvað félagið að ljúka málinu með sátt.
Ítrekað eignað orðin „voða kósý“
Samkeppniseftirlitið byggir niðurstöður sínar á svokölluðu NR-samráði en nafnið er samsuða úr upphafsstöfum tveggja innanhúsverkefna Eimskips og Samskipa.
Meðal forsendna þeirrar kenningar er að Eimskip hafi lýst flutningsmarkaðnum sem „voða kósý“ og er ítrekað staðhæft í andmælaskjölunum sem Eimskip voru afhent, að félagið hafi notað þessi orð.
Sem fyrr segir kvörtuðu Eimskipsmenn yfir að hafa ekki fengið gögn málsins en þegar ummælin voru loks borin undir skipafélagið bendir Eimskip á að samtímagögn, sem „samkeppniseftirlitið leyndi Eimskip“ sýni skýrt að ummælin hafi ekki verið höfð eftir neinum hjá skipafélaginu.
„Gögnum því til meints stuðnings var haldið frá Eimskip í tæp tvö ár frá birtingu fyrra andmælaskjals. Þegar þau voru loks afhent eftir ítrekaðar kröfur Eimskips um gögn málsins, kom á daginn að tilvitnuð ummæli voru alls ekki höfð eftir Eimskip, heldur fyrrverandi starfsmanni Arion banka hf.,“ segir í síðari andmælum Eimskips frá júní 2020.
Ætluðu að setja Samskip „á hælana“
Eimskipsmenn telja þessa ályktun eftirlitsins um að friður hafi verið á markaði sérstaka í ljósi þess að árið 2008 staðfesti áfrýjunarnefnd Samkeppnismála úrskurð SKE um að Eimskipi hafi verið ólögmætt að hyggjast ætla að setja Samskip „á hælana“.
Eimskip fékk 230 milljóna króna stjórnvaldssekt fyrir að hafa sett stóra viðskiptavini Samskipa á „target lista“ og reynt að fara á eftir þeim.
Eimskip var talið hafa raskað samkeppni með svokallaðri sértækri verðlækkun eða tilboði sem markaðsráðandi fyrirtæki til viðskiptavina smærri keppinauta.
Að mati eftirlitsins sjálfs miðaði markaðsatlagan að því „að ná miklum viðskiptum af Samskipum með óeðlilegum tilboðum og undirboðum.”
Þá lagði Eimskip einnig fram ítarleg gögn í málinu til að hrekja fullyrðingar um að friður hafi verið á markaði.
Má þar nefna kvörtun Samskipa til Samkeppniseftirlitsins 4. maí 2011 þar sem er lýst fjölmörgum dæmum um ásókn Eimskips í stóra viðskiptavini Samskipa.
Sú kvörtun kemur einnig fram í andmælum Samskipa en að þeirra mati verður það að teljast sérstakt að þeir hafi óskað eftir rannsókn Samkeppniseftirlitsins á helsta keppinaut sínum ef þeir væru í allsherjarsamráði. Engum þeim tilvikum sem lýst er í kvörtun Samskipa frá 2011 hefur verið hnekkt af Samkeppniseftirlitinu.
Eimskipsmenn leggja einnig fram ítarleg innanhússgögn sem þeir segja Samkeppniseftirlitið hafa ákveðið að líta fram hjá sem sýni að félagið hafi verið í harðri samkeppni við Samskip.
Í glærukynningu innanlandssviðs Eimskips dags. 30. september 2008 kemur fram að afar hörð samkeppni ríki á markaðnum. Í kynningu á uppgjöri Eimskips frá febrúar 2009 fyrir innanlandsflutninga er tiltekið að fyrir hendi sé: „Mikil samkeppni á markaði – sótt að okkur.“
Í glærukynningu fyrir stjórnendafund Eimskips 1. október 2009 kemur fram að fyrir hendi sé „hörð samkeppni og afar erfitt rekstrarumhverfi“ sem séu meðal helstu ógna Eimskips á innanlandsmarkaði.
Eimskip nefnir fjölmörg dæmi til viðbótar og segir að „lýsing sem svo ríka stoð fær í samtímagögnum geti á engan hátt talist röng, villandi eða ófullnægjandi.“
Í gögnum samráðsmálsins er einnig að finna upplýsingar um að Samskip hafi gert sérstakan „target“ lista á viðskiptavini Eimskips á umræddu samráðstímabili.
„Samskip lét útbúa sérstakan flokk í kerfum sínum yfir mögulega viðskiptamenn sem félagið gæti sótt frá Eimskip. Átti þetta sér stað í byrjun árs 2010, eða hringiðu ætlaðs samráðs skv. kenningu Samkeppniseftirlitsins sem þannig fær bersýnilega ekki staðið. Fyrir árið 2012 útbjó svo Samskip sérstaka „target“ lista yfir þá viðskiptavini Eimskip sem félagið hugðist sækja sérstaklega á,“ segir í andmælum.