Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í vikunni á ADQ, eins af þjóðarsjóðum furstadæmisins Abú Dabí í viðræðum um kaup á Marriott Edition hótelinu við Hörpu. Hótelið telur um 250 herbergi og er fyrsta fimm stjörnu hóteli höfuðborgarsvæðisins. Ef af kaupunum verður má vænta þess að það verði ein stærstu viðskipti ársins hér á landi.
Framkvæmdirnar hafa reynst dýrari og tímafrekari en ráðgert var í upphafi, meðal annars vegna heimsfaraldursins. Bókfærður kostnaður við byggingu hótelsins í árslok 2020, að meðtöldum vaxtakostnaði, nam 167 milljónum dollara, eða um 22 milljörðum króna miðað við núverandi gengi, samkvæmt uppgjöri móðurfélags hótelsins Cambridge Plaza Venture Company ehf.
Þá voru enn meira en níu mánuðir í að hótelið opnaði að hluta og meira en ár í að hótelið opnaði að fullu. Hótelið opnaði formlega í október 2021 en upphaflega var ráðgert að það yrði opnað sumarið 2018. Í árslok 2020 nam eigið fé móðurfélagsins Cambridge 58 milljónum dollara, um 7,5 milljörðum króna, en bankalán frá Arion banka um 105 milljónum dollara, tæpum 14 milljörðum króna.
Íslenskir lífeyrissjóðir eiga alls um 43% hlut í hótelinu og íslenskir einkafjárfestar um 27%, hvort tveggja í gegnum fjárfestingarfélagið Mandólín. Þá eiga erlendir fjárfestar um 30% hlut í gegnum hollenskt eignarhaldsfélag.
Þjóðarsjóðir Abú Dabí eru þeir þriðju stærstu í heimi á eftir Noregi og Kína. Sjóðir furstadæmisins fjárfesta um allan heim og voru meðal annars meðal stórra fjárfesta í hlutafjárútboði Íslandsbanka á síðasta ári og eiga þrjú af þeim þrettán Marriott Edition hótelum sem nú eru í rekstri í heiminum.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.