Lagerinn Iceland ehf., móðurfélag Rúmfatalagersins og húsgagnaverslunarinnar Ilvu, hagnaðist um rúmlega einn og hálfan milljarð króna á síðasta rekstrarári sem náði yfir tímabilið 1. mars 2021 til 28. febrúar 2022. Rekstrarárið á undan nam hagnaður félagsins 1,9 milljörðum króna.
Nær allur hagnaður síðasta rekstrarárs kom frá Rúmfatalagernum, sem hagnaðist um rétt rúmlega einn og hálfan milljarð á síðasta reikningsári.
Eignir félagsins námu 6,7 milljörðum í lok tímabilsins, skuldir 592 milljónum króna og bókfært eigið fé nam 6,1 milljarði króna. Lagerinn Iceland móttók 790 milljóna króna arð á síðasta rekstrarári, rétt eins og á rekstrarárinu á undan.
Á síðasta rekstrarári seldi félagið eitt af dótturfélögum sínum, Jósku ehf., til hollenska móðurfélagsins Lagerinn Dutch Holding BV. Við söluna voru langtímalán upp á hátt í 10 milljarða króna við móðurfélagið gerð upp og langtímakröfur upp á hátt í 2 milljarða á tengd félög yfirtekin.
Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.