Hampiðjan, sem hlaut í gær Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, er vafalaust þekktust fyrir framleiðslu á netum og köðlum. Færri vita að nýsköpun inni í þessu rótgróna fyrirtæki hefur verið drifkraftur velgengni þess en fyrirtækið er með um 30 einkaleyfi.
Vöruþróun er Hirti Erlendssyni forstjóra hugleikin. Hann segir að Hampiðjan hafi um árabil framleitt togtaugar fyrir togveiðiskip. DynIce Warp hefur verið flaggskipið, en það var hannað fyrir togveiðiskip í staðinn fyrir stálvír. Tógið er sterkara en stál en flýtur samt á vatni.
Nýjasta afurð Hampiðjunnar er ljósleiðarakapall, sem nefnist DynIce Optical Data og á að leysa kapla með koparleiðurum af hólmi. Í þessum nýja kapli eru þrír ljósleiðarar.
„Það er bylting því hver þessara ljósleiðara getur flutt bíómynd í fullum gæðum frá trolli upp í brú á örfáum sekúndum. Við sjáum fyrir okkur að þessi flutningsgeta verði notuð til að tengjast við fjölda myndavéla í trollinu. Einnig opnar flutningsgeta kapalsins möguleika á að þróa búnað til að tegundargreina og stærðarmeta botnfisk sem kemur í trollið.
Draumurinn er sá að hægt verði að velja þann fisk sem á að fanga en sleppa smáfiski og þeim fiskitegundum sem ekki er verið að sækjast eftir. Við erum þegar komin áleiðis í þessari þróun í samstarfi við Stjörnu-Odda og Hafró með stuðningi Rannís.
Einnig sjáum við fyrir okkur að settir verði sendar á ákveðna staði á trollinu og senda út bylgjur til nema sem staðsettir eru víða á trollinu. Nemarnir endurvarpa bylgjunum til sendanna og þá verður hægt að reikna út staðsetningu hvers nema fyrir sig.
Þannig verður hægt á fá tölvuteiknaða mynd af trollinu og sjá hvernig það lítur út í rauntíma á skjá uppi í brú. Þetta er svipuð tækni og notuð er þegar verið er að gera teiknimyndir eða tölvuleiki. Þá eru margir nemar settir á leikara til að skrá hreyfingar þeirra og þær síðan yfirfærðar á teiknimyndapersónuna eða tölvuleikjafígúruna.
Þetta er orðið mjög hátæknilegt og ég get fullyrt að það er ekkert kaðlafyrirtæki sem framleiðir fyrir veiðarfæri sem er komið jafnlangt og við í þessu."
Viðtal við Hjört birtist í tímaritinu Áramótum, sem kom út fimmtudaginn 29. desember. Áskrifendur geta lesið það í heild hér.
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði