Undanfarna daga og vikur hafa grínistar lent í því að vera slaufaðir af kínversku ríkisstjórninni sem hefur ekki tekið vel í brandara þeirra. Kínverskir uppistandarar hafa annaðhvort verið sektaðir eða komist að því að reikningum þeirra á samfélagsmiðlum hafi verið eytt.

Í síðustu viku var kínverski grínhópurinn Shanghai Xiaoguo Culture Media Co. sektaður um 300 milljónir króna eftir að uppistandarinn Li Haoshi lét brandara falla um kínverska herinn. Li Haoshi, einnig þekktur sem House, líkti framkomu hersins við hegðun hunds og sögðu stjórnvöld að brandarinn hafi niðurlægt kínverska herinn.

Löggæsluteymi innan kínversku lögreglunnar í Peking sem meðhöndlar menningarmál sagði í yfirlýsingu eftir sýninguna að hún hafi fengið ábendingar frá almenningi um brandara Li og hafi í kjölfarið hafið rannsókn á fyrirtækinu sem hann starfaði hjá.

Li Haoshi baðst afsökunar á brandaranum en ásamt sektinni hefur ríkisstjórnin einnig bannað grínhópnum að starfa í höfuðborginni. Grínistinn gæti enn átt yfir höfði sér þriggja ára fangelsi fyrir brandarann.

Ein kona í norðurhluta Kína var þar á meðal handtekin fyrir að hafa varið uppistandarann á samfélagsmiðlum.

Malasíski grínistinn Nigel Ng, einnig þekktur sem "Uncle Roger" og Li Haoshi, einnig þekktur sem "House".
© Samsett (SAMSETT)

Viðskiptablaðið ræddi við erlendan grínisti sem er búsettur í Kína. Hann þekkir vel til enskumælandi uppistands-senunnar í landinu en vildi ekki láta nafn síns getið. Hann segir að uppákoman með Li Haoshi virðist hafa skipt fólki í þrjár fylkingar.

„Það voru margir sem reiddust þegar House var sektaður og urðu líka áhyggjufullir um hvað þetta gæti mögulega þýtt fyrir kínverskt uppistand. Þeim finnst að Kína ætti að hafa sama frelsi og aðrar þjóðir þegar kemur að gríni. Svo voru aðrir sem sögðu að þetta var bara honum sjálfum að kenna. Hann þekkti reglurnar en ákvað samt að brjóta þær.“

Hann segir þriðju fylkinguna viðhalda þjóðernissinnuðu viðmiði og telja að það sé einfaldlega rangt að segja slíka brandara. Sú skoðun sé frekar algeng meðal margra Kínverja og hefur jafn mikið að gera með asísku hugmyndina um „andlit“, eða virðingu og pólitískan rétttrúnað.

„Gagnrýni á ekki að vera opinber og er sú hugmynd rótgróin í kínverskri menningu"

„Margir telja að ákveðnar stofnanir ættu ekki að verða fyrir opinberu athlægi þar sem það lætur alla þá sem koma að málinu líta illa út. Í augum þeirra grefur það undan þjóðinni og gerir lítið úr framförum fólksins. Gagnrýni á ekki að vera opinber og er sú hugmynd rótgróin í kínverskri menningu, allt frá því hvernig börn eru alin upp og í það hvernig stjórnsýslan virkar,“ segir hann.

Hefur áhrif víða

Atvikið virtist einnig hafa haft keðjuverkandi áhrif á annars konar sýningar í landinu. Japanskur kór þurfti til að mynda að blása af ferðalag sitt um Kína, djass sýning sem átti að fara fram í Peking var aflýst og er nú þegar búið að aflýsa nokkrum uppistandssýningum í mismunandi kínverskum borgum.

Grínistar utan Kína hafa einnig lent í deilum við kínversk stjórnvöld en malasíski grínistinn Nigel Ng, einnig þekktur sem Uncle Roger, var hent út af kínverskum samfélagsmiðlum fyrir að hafa gert grín að harðræði kínverskra yfirvalda.

Nigel er búsettur í Bretlandi og hefur öðlast mikla frægð á samfélagsmiðlum fyrir að leika ýkta útgáfu af dæmigerðum „asískum frænda“ sem hæðist að fólki fyrir að elda ekki asískan mat á réttan hátt. Hann hefur þar á meðal gert grín að kokkunum Jamie Oliver og Gordon Ramsey.

Á uppistandssýningu sinni, sem Nigel deildi á Twitter, var hann að tala við áhorfendur í salnum og spurði hvaðan þau komu. Þegar einn þeirra sagðist vera frá Kína byrjaði Nigel að grínast með að hann yrði að segja að Kína væri góð þjóð og að Taívan væri ekki alvöru sjálfstætt ríki. Í lokin grínaðist Nigel með að honum yrði slaufað frá og með kvöldinu.

Eftir sýninguna var búið að loka fyrir aðgang hans á kínversku samfélagsmiðlareikningum sínum á bæði Weibo og Bilibili. Nigel var með yfir 400.000 fylgjendur á Weibo en samfélagsmiðillinn segir að hann hafi verið settur í bann fyrir að hafa brotið lög og reglur.

Hefðbundin kínversk "Xiangsheng" uppistandssýning fer fram í kínversku borginni Tianjin, skammt frá höfuðborginni.
© Wikimedia Commons (Wikipedia)

Uppruni gríns í Kína

Grínmenning í Kína á sér rætur að rekja til Zhou-keisaraveldisins (1100-221 f.kr.) þegar kínverskir aðalsmenn réðu hirðfífl til að halda sýningar á heimilum sínum. Þar sem stór hluti kínversku þjóðarinnar aðhylltist hins vegar hugsunum Konfúsíusar var lengi vel litið niður á grín í Kína.

Á nítjándu öld og fyrir tíma kommúnismans blómstraði tegund af uppistand í Kína sem kallast „Xiangsheng“. Sýningarnar virka þannig að tveir grínistar standa hlið við hlið, yfirleitt í hefðbundnum kínverskum fötum og skiptast á bröndurum. Í raun má segja að Xiangsheng sé nokkurs konar kínversk útgáfa af Kaffibrúsakörlum Gísla Rúnars og Júlíusar Brjánssonar.

Kínverjar og Íslendingar eiga það einnig sameiginlegt að sýna áramótaskaup þegar nýja árið gengur í garð. Þegar Kínverjar halda upp á kínverska nýárið er hið svokallaða „Chinese New Year‘s Gala“ sýnt á ríkisreknu sjónvarpsstöðinni CCTV. Þá er hins vegar sýnt frá sviði þar sem leikarar og grínistar koma saman og taka fyrir það sem gerst hefur á árinu í Kína.

Íslensku grínistarnir byrjuðu ferðalag sitt á uppistands-klúbbum Shanghai.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Íslenska innrásin

Kínverskir grínistar eru ekki þeir einu sem hafa skemmt fyrir kínverskum áhorfendum en erlendir grínistar hafi notið mikilla vinsælda í Kína og hafa grínistar á borð við Jim Gaffigan og Louis CK skemmt þar í landi.

Árið 2018 fór einnig fram fyrsta íslenska uppistandsferðalag um Kína og héldu þá fjórir íslenskir grínistar til Shanghai, Wuhan og Peking. Það voru þau Hugleikur Dagsson, Helgi Steinar, Snjólaug Lúðvíks og Andri Ívarsson. Ferðin var svo endurtekin ári seinna en það ár skemmtu Bjarni Töframaður Baldvinsson og Þórhallur Þórhallsson fyrir kínverskum þegnum landsins.

Uppselt var á allar sýningar Íslendingana í borgum Kína.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sýningarnar árið 2019 voru meðal þeirra seinustu sem áttu sér stað fyrir heimsfaraldur en uppistandssýning þeirra Íslendinga fór meðal annars fram í borginni Wuhan þann 14. nóvember, 2019, fjórum dögum fyrir fyrsta staðfesta Covid-smit.

„Þetta var frábær lífsreynsla. Áhorfendurnir voru góð blanda af innfæddum og aðfluttum og mér fannst í raun enginn áþreifanlegur munur að flytja uppistand þarna og annars staðar. Uppistandið var í raun það venjulegasta við þá ferð. Allt annað, maturinn menningin og fólkið, var aðal ævintýrið,“ segir Hugleikur Dagsson.

Hugleikur komst einnig að því á ferð sinni um landið að teikningar hans höfðu þegar verið þýddar yfir á kínversku án vitundar hans. Hann segir það engu að síður hafa komið skemmtilega á óvart. „Það var mjög gaman að sjá þetta. Helst væri ég til í að einhver myndi gefa mig út á kínversku. En það er líklega ekki að fara að gerast.“

Hugleikur Dagsson hafði enga hugmynd að búið væri að þýða teikningar hans yfir á kínversku.
© Samsett (SAMSETT)

Breytingar og harðræði

Ritskoðun undanfarinna daga á kínverskum grínistum endurspeglar breytt landslag í samskiptum kínverskra yfirvalda við listmenningu landsins. Kínversk stjórnvöld hafa í síauknum mæli haft afskipti af listum í landinu og virðast vilja koma böndum á skemmtanageirann í Kína, sem þeir hafa sagt vera að leiða ungt fólk af réttri leið.

Fyrir tveimur árum síðan skipuðu stjórnvöld í Kína til að mynda sjónvarpsstöðvum að ráða ekki listamenn sem höfðu rangar pólitískar skoðanir eða þóttu of „kvenlegir“. Suður-Kóreskar og Japanskar strákasveitir hafa notið mikilla vinsælda í Kína og hefur kínverska ríkisstjórnin áhyggjur að verið sé að grafa undan karlmennsku í landinu.

Samhliða þeim reglum sem gefnar voru út af menningarráðuneyti Kína var einnig lagt til að frægt fólk og áhrifavaldar sæki reglulega siðferðisþjálfun og í stað dýrkun á frægu fólki ætti að byggja upp andrúmsloft ástar í garð Kommúnistaflokksins og Kína.

„Brandarar um fjölskyldu og menningu eru alltaf meira en velkomnir í Kína. Eftirspurnin fyrir svoleiðis er líka farin að vaxa hressilega, allavega að mínu mati."

Erlendi grínistinn sem búsettur er í Kína segir að lokum að þrátt fyrir núverandi atlögu er engin ástæða til að hafa áhyggjur af sjálfri grínmenningu innan landsins. Uppistand mun halda áfram í Kína en hann segir aftur á móti að línan er orðin skýrari um það hvað má og má ekki grínast með.

„Í dag horfði ég til dæmis á uppistandssýningu frá Shanghai þar sem Kínverji var að grínast með dagsetninguna 20. maí. Á kínversku er sá dagur ritaður sem „5-20“ og þegar þú segir það á kínversku þá hljómar það eins og „ég elska þig“. Dagurinn hefur þar með breyst í nokkurs konar kínverskan Valentínusardag. Kínverski uppistandarinn var að gera grín að erlendum eiginmanni kínverskrar konu sem var í salnum og vissi ekki af þessu. Allir í salnum hlógu hressilega að þessum menningarmun. Það var ótrúlega fyndið og svona brandarar um fjölskyldu og menningu eru alltaf meira en velkomnir í Kína. Eftirspurnin fyrir svoleiðis er líka farin að vaxa hressilega, allavega að mínu mati.“