Peningastefnunefnd gæti neyðst til að hækka stýrivexti ofan á fallandi raun- eða jafnvel nafnverð á fasteignamarkaði að sögn seðlabankastjóra, komi sú staða upp á næstunni eins og sumir vara nú við.
Raungerist þær spár á sama tíma og verðbólga á öðrum sviðum verði þrálát og aukist jafnvel yrði lögbundið markmið bankans um verðstöðugleika í víðara samhengi að ganga fyrir.
Sjá einnig: Þröskuldurinn kominn til að vera
„Ég held að fasteignamarkaðurinn sé að hægja verulega á sér, sem muni hjálpa okkur mikið að ná niður verðbólgu þegar kemur fram á næsta ár. Það sem hefur unnið á móti okkur hingað til mun þannig fara að vinna með okkur,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Spurður um viðbrögð peningamálayfirvalda við ofangreindum aðstæðum minnir hann á að þótt sá markaður hafi eðlilega fengið mjög mikið rými í umræðunni nýverið sé hann aðeins einn af mörgum. Lögbundið markmið nefndarinnar og bankans snúi að verðlagi í heild og peningastefnunni sé því ekki beint að fasteignamarkaðnum sérstaklega.
„Við erum náttúrulega ekki að breyta vöxtum bara fyrir fasteignamarkaðinn. Ef innlenda raunhagkerfið fer að hitna verulega við slíkar aðstæður gæti það alveg gerst að við neyðumst til að hækka vexti til að bregðast við því vitandi vits að það er að fara að keyra fasteignamarkaðinn niður. Fasteignamarkaðurinn gæti alveg orðið fórnarlamb,“ segir seðlabankastjóri en bætir við að enn ríki talsverð óvissa um hver þróunin verði, bæði á fasteignamarkaði og almennt.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun sem birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.