Spænska ríkisstjórnin hefur ákveðið að hætta að bjóða upp á svokallaðar gullnar vegabréfsáritanir sem gerði erlendum fjárfestum kleift að búa í landinu gegn greiðslu.
Á ríkisstjórnarfundi í gær var ákveðið að binda enda á þessu kerfi en erlendir fjárfestar hafa hingað til getað fengið vegabréfsáritun á Spáni ef þeir keyptu fasteign fyrir meira en 500 þúsund evrur.
Kerfinu var komið fyrir árið 2013 af íhaldsflokki Mariano Rajoy og var upprunalega hugsað sem leið til að laða erlenda fjárfestingu til landsins í kjölfar efnahagskreppunnar á evrusvæðinu, sem hafði sérstaklega mikil áhrif á Spánverja.
Til ársins 2023 hafa verið gefnar út 6.200 vegabréfsáritanir og voru rúmlega helmingur þeirra áritanna, eða 2.712, gefnar til Kínverja. Þar á eftir koma Rússar með 1.159 áritanir og svo Íranar og Bandaríkjamenn.
Áritun fékkst einnig í skiptum fyrir að fjárfesta minnst tvær milljónir evra í ríkisskuldabréfum eða í spænskum fyrirtækjum sem væru á uppleið. Hins vegar voru aðeins 6% vegabréfsáritana gefin út af öðrum ástæðum en fasteignakaupum.
Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, segir að kenna megi forvera sínum um það hvernig fór og bætir við að það væri stefna ríkisstjórnarinnar að tryggja að húsnæði væri flokkaður sem réttur fyrir almenning, ekki bara varning.
Meirihluti þessara áritana tengdist þá kaupum á fasteignum í borgum eins og Madríd, Barcelona, Valencia, Málaga, Alicante og Baleareyjum. Öll þessi svæði hafa orðið fyrir barðinu á efnahagsástandinu og er nánast ómögulegt fyrir marga á þessum stöðum að finna húsnæði á viðráðanlegu verði.