Elon Musk staðfesti í vikubyrjun að hann muni um óákveðinn tíma gegna starfi forstjóra hjá samfélagsmiðlinum Twitter, en kaup milljarðamæringsins á samfélagsmiðlinum vinsæla gengu í gegn á dögunum.
Auk þess að stýra Tesla heldur Musk einnig um stjórntaumana í geimferðafyrirtækinu SpaceX og nýsköpunarfyrirtækjunum Neuralink og Boring Company.
Hann er þegar byrjaður að taka til hendinni hjá Twitter og var eitt af hans fyrstu verkum að reka forstjóra og æðsta stjórnendateymi samfélagsmiðilsins. Musk hefur þegar leitað til utanaðkomandi ráðgjafa til að aðstoða sig við að endurskipuleggja rekstur Twitter.