Tekjur Emblu Medical (áður Össur hf.) á fyrsta ársfjórðungi 2024 námu 200 milljónum Bandaríkjadala eða um 27,4 milljörðum íslenskra króna, sem samsvarar 10% vexti og 7% innri vexti.
Hagnaður stoðtækjaframleiðandans á fyrsta ársfjórðungi nam 8 milljónum Bandaríkjadala sem samsvarar um 1,1 milljörðum íslenskra króna.
Samkvæmt uppgjöri félagsins var um 10% innri vöxtur í sölu á stoðtækjum, 1% á spelkum og stuðningsvörum, og 6% í þjónustu við sjúklinga á tímabilinu.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og einskiptisliði nam 33 milljónum Bandaríkjadala (4,6 milljörðum íslenskra króna) eða 17% af veltu á fyrsta ársfjórðungi.
Samkvæmt uppgjörunum er fjárhagsáætlun félagsins fyrir árið 2024 óbreytt og er enn stefnt á 5-8% innri vöxt og 19-20% EBITDA framlegð að teknu tilliti til einskiptisliða á árinu.
Kaup félagsins á Fior & Gentz voru kynnt í byrjun árs en félagið ákvað um miðjan mars að stofna móðurfélagið Embla Medical hf. sem heldur utan um vörumerkin Össur, College Park og FIOR & GENTZ, ásamt fjölda þjónustustöðva víðs vegar um heiminn.
Í uppgjörinu er greint frá því að þann 18. janúar 2024 gæfu Medicare (sjúkratryggingar ríkisins í Bandaríkjunum) út tillögu að kerfisbreytingum sem munu koma til með að auka verulega aðgengi að hágæða stoðtækjum. Endanleg útfærsla og tímasetning liggur þó ekki fyrir að svo stöddu.
„Á fyrsta ársfjórðungi námu tekjur 200 milljónum Bandaríkjadala (27,4 milljörðum íslenskra króna) sem samsvarar 10% vexti, þar af 7% innri vexti. Söluvöxtur var góður í sölu á stoðtækjum og þjónustu við sjúklinga, sér í lagi í Evrópu. Gengi FIOR & GENTZ, þýska stoðtækjafyrirtækisins sem við festum kaup á í upphafi árs, er í takt við væntingar og vinnum við hörðum höndum að því að nýta innviði okkar til að uppskera samlegðaráhrif á söluhliðinni. Þetta er fyrsta ársfjórðungsuppgjörið undir heiti nýja móðurfélagsins Embla Medical en vörumerkin Össur, College Park og FIOR & GENTZ, ásamt fjölda þjónustustöðva víðs vegar um heiminn, tilheyra nú Emblu Medical,“ segir Sveinn Sölvason forstjóri.