Norðurál hefur gert samning við íslenska álendurvinnslufyrirtækið Al um vinnslu á gjallsandi sem fellur til við framleiðslu álversins á Grundartanga. Ný verksmiðja sem Alur hefur fest kaup mun vinna sandinn svo mögulegt sé að endurnýta hann í ýmsa framleiðslu, til að mynda sementsframleiðslu.
Norðurál segir í tilkynningu að það hafi um árabil unnið að því að auka endurvinnsluhlutfall þess efnis sem fellur til við álframleiðsluna en á síðasta ári voru um 80% alls úrgangs sem til verður endurunnin.
„Samningurinn við Al er mikilvægt skref í að standa við metnaðarfulla aðgerðaráætlun okkar í loftslags- og umhverfismálum. Við erum vel á veg komin að uppfylla markmið okkar um að draga úr kolefnislosun fyrir árið 2030,“ segir Sigrún Helgadóttir, framkvæmdastjóri Norðuráls Grundartanga.
Alur Álvinnsla hefur verið starfrækt frá árinu 1998 og framleiddi á síðasta ári um 4.000 tonn af áli með endurvinnslu álgjalls.
„Hjá Al er notast við bestu tækni fáanlega (BAT) en jafnframt er Alur eina verksmiðjan á Íslandi sem endurvinnur álgjall. Það er mikið fagnaðarefni að loka hringnum í verksmiðju Als á Grundartanga. Öll efni sem koma til endurvinnslu hjá okkur eru áframnýtanleg eftir meðhöndlun,“ segir Brynja Silness, framkvæmdastjóri Als Álvinnslu.