Heilbrigðisráðuneytið hefur ákveðið að ekki séu forsendur til að stöðva rekstur Intuens Segulómunar í ljósi þess að fyrirtækið gerði grundvallarbreytingar á starfsemi sinni í framhaldi af samskiptum sínum við ráðuneytið og embætti landlæknis.
Embætti landlæknis fór þess á leit við ráðuneytið að starfsemin yrði stöðvuð í ljósi þess að fyrirtækið brást ekki við ítrekuðum erindum og tilmælum landlæknis.
Viðskiptablaðið greindi frá komu Intuens í síðasta mánuði og ræddi við Torfa G. Yngason, einn stofnanda Intuens, og Steinunni Erlu Thorlacius framkvæmdastjóra. Mikil gagnrýni heyrðist úr röðum lækna í kjölfarið og var starfsemin sett á ís skömmu síðar.
Intuens fékk staðfestan rekstur frá embætti landlæknis þann 3. nóvember síðastliðinn til að veita myndgreiningarþjónustu á grundvelli tilvísana. Landlæknir tók sérstaklega fram að það næði ekki til skimana og því væri starfsemin óheimil.
Fyrirtækið hefur hins vegar tilkynnt ráðuneytinu um grundvallarbreytingu á starfsemi þess. Intuens bjóði ekki lengur upp á heilskimun heldur eingöngu segulómrannsóknir á tilteknum líkamshlutum auk þess sem aðeins læknar sem hafa engin tengsl við stöðina geti tilvísað sjúklingum.
Embætti landlæknis telur að með þessum breytingum á starfseminni rúmist nú þjónusta Intuens innan þeirra marka sem voru forsendan fyrir upphaflegri staðfestingu embættisins á rekstri fyrirtækisins