Martak var stofnað árið 1986 í Grindavík og býður upp á alhliða lausnir og þjónustu fyrir matvælaiðnaðinn en í gegnum tíðina hefur félagið mest þjónustað sjávarútveginn. Félagið hefur á undanförnum árum lagt sífellt meiri áherslu á að þjónusta einnig fiskeldisiðnaðinn í gegnum þekkingarfyrirtækið Dystia. Umrætt fyrirtæki hefur þróað heildstæða lausn sem lýtur að meðhöndlun frárennslis frá laxeldi.
Guðjón Ingi Guðjónsson, framkvæmdastjóri Dystia, segir félagið hafa komið auga á tækifæri á markaðnum þar sem meiri kröfur séu gerðar til vatnshreinsunar frá laxaslátrun heldur en í öðrum matvælaiðnaði. Enginn hafi verið að sinna þessum iðnaði hér á landi og því tækifæri til að gera sig gildandi á þessu sviði. Dystia sér ekki einungis um sölu og uppsetningu á vatnshreinsibúnaðinum, heldur sér félagið einnig um viðhald og aðra tilfallandi þjónustu sem fellur til vegna búnaðarins. „Þessar auknu kröfur eru hugsaðar til þess að koma í veg fyrir að sjúkdómar eigi greiða leið út í hafið. Það er því ekki einungis nóg að hreinsa frárennsli laxasláturhúsa heldur þarf að auki að sótthreinsa það. Vatnshreinsunin er mjög mikilvægur póstur í starfsemi laxeldisfyrirtækja. Ef hreinsibúnaðurinn er ekki í lagi stoppar það alla vinnsluna, með tilheyrandi fjártjóni.“

Umhverfisþátturinn sífellt mikilvægari
Mikilvægi vatnshreinsibúnaðarins felist ekki einungis í því að fylgja lögum og reglum heldur sé hann einnig mikilvægur í ljósi þess að umhverfis- og sjálfbærnisjónarmið eru farin að leika lykilhlutverk í starfsemi sjávarútvegs- og eldisfyrirtækja.
„Fyrirtækin leggja áherslu á að vera með hreina og góða vöru. Sökum þessa þurfa þessi fyrirtæki að vera fyrirmyndir annarra þegar kemur að umgengni við náttúruna. Góð matvælaframleiðsla helst í hendur við góða umgengni við náttúruna. Það er ekki síður mikilvægt fyrir fyrirtækin að vera með góða ímynd gagnvart neytendum enda leggja þeir síaukna áherslu á hreinleika.“
Dystia leggi sökum þessa áherslu á að hjálpa fyrirtækjum að vernda náttúruna eins vel og hægt er. „Það má segja að frárennslilausnin okkar sé vörn milli fyrirtækjanna og náttúrunnar. Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að framleiða þessa vöru án þess að það falli til úrgangur í framleiðsluferlinu. Það er mikilvægt að sem minnst af úrgangi sem getur verið skaðlegur renni í niðurfall þessara sláturhúsa og þar kemur búnaðurinn okkar sterkur inn.“
Guðjón segir engum blöðum um það að fletta að Íslendingar hafi í gegnum tíðina ekki sinnt frárennslismálum neitt sérstaklega vel. Smæð landsins og landfræðileg lega skýri það væntanlega að einhverju leyti. „Lengi tekur sjórinn við og allt það en staðreyndin er sú að þetta er sama haf og liggur að fjölda annarra landa. Okkur ber því að gæta okkur, ganga vel um og huga að þessum málum.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins um ársfund SFS. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild hér.