Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa í Bandaríkjunum hefur ekki verið lægri síðan í sumar en krafan á tíu ára ríkisskuldabréf fór úr 4,286 í 4,171% í gær.
Krafan fór yfir 5% í lok október en hefur síðan þá lækkað töluvert. Samhliða lækkuninni hefur hlutabréfamarkaðurinn vestanhafs vaknað til lífsins eftir nokkra dræma mánuði í röð.
Tæknifyrirtækin halda áfram að halda hlutabréfavísitölum uppi en Nasdaq vísitalan, þar sem tæknifyrirtækin eru þungamiðjan, fór upp um 0,3% í gær á meðan S&P vísitalan lækkaði um minna en 0,1% og Dow Jones lækkaði um 80 punkta.
Markaðsvirði Apple 3 þúsund milljarðar dala
Sjö stóru tæknifyrirtækin á markaði hækkuðu öll nema Meta sem lækkaði um 0,5%. Hlutabréf í örflöguframleiðandanum Nvidia hækkuðu um 2,3% á meðan Apple hækkaði um 2,1%.
Miðað við dagslokagengi Apple í gær er markaðsvirði félagsins yfir þrjú þúsund milljörðum Bandaríkjadala.
The Wall Street Journal greinir frá.