John Waldron er af mörgum talinn líklegasti arftaki David Solomon sem forstjóri Goldman Sachs. Slík ákvörðun gæti þó haft ófyrirséðar afleiðingar, samkvæmtFinancial Times.
Seint á síðasta ári stóð John Waldron, forseti og rekstrarstjóri Goldman Sachs, frammi fyrir erfiðri ákvörðun: Að taka við starfi hjá Apollo Global Management með launapakka sem myndi gjörbreyta lífi hans, jafnvel þó hann þénaði 30 milljónir dala árið áður, eða halda tryggð við Goldman Sachs.
Samkvæmt heimildum FT var Waldron boðið launapakka sem gæti numið allt að hálfum milljarði dollara yfir nokkur ár.
Waldron, 56 ára, upplýsti yfirmann sinn, David Solomon, 63 ára, um tilboðið. Þeir höfðu þekkst í áratugi og hækkað saman í tign innan bankans.
Heimildarmenn FT sem hafa unnið með þeim báðum líkja sambandi þeirra við bræðralag, þar sem Solomon gegnir hlutverki hins verndandi eldri bróður.
FT segir að það sé ekkert launungarmál að Waldron hafði lengi haft augastað á forstjórastólnum en margir töldu að það væri áhættusamt að hafna jafn glæsilegu tilboði, enda hafa margir bankamenn á Wall Street beðið eftir stöðuhækkun án þess að hún yrði að veruleika.
Að lokum ákvað Waldron að halda sig við Goldman Sachs og var umbunað með 80 milljóna dala fimm ára bónus – sem þó var aðeins brot af því sem Apollo bauð. Auk þess fékk hann sæti í stjórn bankans og aukinn aðgang að einkaþotu fyrirtækisins.
Þessar aðgerðir virtust staðfesta grun margra um að Solomon og stjórn bankans hefðu þegar valið Waldron sem næsta forstjóra hins 156 ára gamla fjárfestingarbanka.
„Þessi staða er nú hans til að tapa,“ segir Mike Mayo, bankasérfræðingur hjá Wells Fargo, en hann telur að Waldron verði forstjóri Goldman Sachs innan næstu fimm ára.
Ef Waldron tekur við verður það í andstöðu við áratugalanga hefð Goldman Sachs, þar sem forstjórastjórinn hefur komið úr viðskiptabanka- eða verðbréfaviðskiptadeildum á víxl til að viðhalda jafnvægi innan fyrirtækisins.
Sumir fyrrverandi samstarfsmenn telja að Waldron skorti ákveðni til að taka erfiðar ákvarðanir, en hann nýtur þó trausts meðal 400 stærstu hluthafa bankans, samkvæmt FT.
Þrátt fyrir að vegferð fjárfestingarbankans í einkabankarekstur, sem hann og Solomon stýrðu, hafi verið talin stór mistök, hefur Waldron haldið sterkri stöðu innan fyrirtækisins.
Spurningin sem vaknar er hvort Waldron geti stjórnað án Solomon, sem hefur verið leiðbeinandi hans frá því áður en hann gekk til liðs við Goldman Sachs árið 2000.
„Heimurinn hefur aldrei séð John án Davids,“ segir samstarfsmaður Goldman Sachs við FT.
Solomon hefur styrkt stöðu sína á undanförnum árum eftir erfiðleika árið 2023 og ekki er útilokað að hann haldi embættinu lengur en margir bjuggust við.
Ef svo fer gæti það valdið starfsmannaflótta, eins og þegar Jim Esposito yfirgaf bankann árið 2024 til að ganga til liðs við Citadel Securities.

© Samsett (SAMSETT)
Hvorki Goldman Sachs né Apollo vildu tjá sig um arftakaferlið þegar FT hafði samband.
Þrátt fyrir að Waldron sé talinn líklegastur til að taka við eru aðrir möguleikar á borðinu.
Marc Nachmann, yfirmaður eignastýringar, er sagður vera sterkur keppinautur. Þá eru einnig Dan Dees og Ashok Varadhan, sem stýra saman fjárfestingarbankastarfsemi og markaðsviðskiptum Goldman Sachs.
Sumir telja jafnvel að Solomon gæti setið lengur en ætlað var, sem gæti opnað dyr fyrir yngri stjórnendur innan bankans.
Einnig er möguleiki á að Waldron fylgi í fótspor fyrri leiðtoga Goldman Sachs og hasli sér völl í stjórnmálum.
Hann hefur áður lýst áhyggjum sínum af vaxandi skuldum Bandaríkjanna og var sagður opinn fyrir starfi í ríkisstjórn Trump, þótt sú leið virðist lokuð sem stendur.
Hvernig arftakaferlið hjá Goldman Sachs þróast mun hafa veruleg áhrif á framtíð bankans. Eitt virðist þó ljóst: Ef Waldron heldur sig við Goldman Sachs gæti hann brátt orðið forstjóri einnar virtustu fjármálastofnunar heims.