Mikið var um lækkanir á aðalmarkaði kauphallarinnar í viðskiptum dagsins. Þannig lækkaði gengi bréfa hjá 17 af þeim 22 félögum sem skráð eru á markaði.

Fasteignafélagið Eik lækkaði mest allra félaga, um 5,9% í 135 milljóna viðskiptum. Icelandair lækkaði um rúm 3,8% í 180 milljóna viðskiptum en gengi bréfa félagsins er þó enn yfir tveimur krónum á hlut. Verðmætasta félagið á markaði, Marel, lækkaði jafnframt um rúm 3% í 330 milljóna veltu.

Einungis þrjú félög hækkuðu í viðskiptum dagsins. Eimskip hækkaði um 1,7% í 560 milljóna viðskiptum, Origo um 0,7% og Iceland Seafood um hálft prósent.

Ríflega þriggja milljarða velta var á aðalmarkaði í dag. Mest var veltan með bréf Íslandsbanka, eða 660 milljónir króna. Lækkuðu bréf í bankanum um 0,75% fyrir vikið, en gengi bréfa bankans standa nú í 131,6 krónum á hlut.