Evrópusambandið hefur greint frá því að það sé að undirbúa refsitolla gegn Bandaríkjunum en þeir tollar munu taka gildi í byrjun apríl. Tollarnir gætu haft áhrif á útfluttan varning sem nemur alls 28 milljörðum dala.
Á vef WSJ segir að tollarnir muni hafa áhrif á vörur eins og bandarískt viskí, báta og mótorhjól. Fleiri tollar munu svo taka gildi um miðjan apríl.
Donald Trump ákvað í gærkvöldi að fresta 25% viðbótartollum á innflutt ál og stál frá Kanada en hann vildi upprunalega tvöfalda þá tolla eftir hótanir frá Doug Ford, fylkisstjóra Ontario, um að leggja 25% toll á raforkuútflutning til Bandaríkjanna.
Samskipti Bandaríkjanna og Kanada hafa sjaldan verið á jafn slæmum stað og nú eftir tollahótanir Trumps og ítrekaðar hótanir um að innlima þjóðina.