Fjárfestingarfélagið Eyrir Invest hf., sem var stærsti hluthafi Marels með 24,7% hlut, fékk afhenta samtals 5.044.720 hluti í JBT Marel Corporation (JBTM) í byrjun janúar eftir yfirtöku John Bean Technologies á Marel.
Miðað við gengi JBTM í morgun er virði hlutanna 85,3 milljarðar en fjárfestingafélagið þurfti þó að afhenda stóran hluta af þessum hlutum til lánveitenda.
Samkvæmt flöggunartilkynningu sem birt var í morgun afhenti Eyrir Invest lánveitendum sínum 1.676.487 hluti í JBTM til endurgreiðslu á láni. Markaðsvirði umræddra hluta nemur um 28,3 milljörðum króna miðað við núverandi gengi JBTM.
Um er að ræða lán sem fjárfestingafélagið tók í lok árs 2022 er JNE Partners og The Baupost Group lögðu Eyri til 175 milljónir evra, eða um 25 milljarða á þáverandi gengi.
JNE Partners er fjárfestingarfélag sem staðsett er í London og The Baupost Group er sjóðastýringarfélag sem stofnað var 1982 og er með höfuðstöðvar í Boston í Bandaríkjunum.
Samkvæmt ársreikningi Eyris bar lánið 15% nafnvexti en sjóðirnir tveir áttu rétt allt að 8% hlut í Marel frá Eyri innan fjögurra ára yrði lánið ekki endurgreitt.
Lánið var eitt af því sem evrópski vogunarsjóðurinn Teleois Capital Partners flaggaði í harðorðu bréfi til stjórnar Marelsí tengslum við yfirtökuna í lok nóvember 2023 en að mati Teleios hefði lánið átt að vera átt að vera viðvörunarmerki um óstöðugleika hjá stærsta hluthafa Marels og vera tilefni til frekari umfjöllunar.
Að loknu uppgjöri og endurgreiðslu á fyrrgreindu láni er Eyrir Invest hf. nú eigandi að 3.368.233 hlutum í JBTM.
Virði eftirstandandi hlutar Eyris í hinu sameinaða félagi eftir lánagreiðsluna er því 56,9 milljarðar króna.