Fjár­festingarfélagið Eyrir Invest hf., sem var stærsti hlut­hafi Marels með 24,7% hlut, fékk af­henta sam­tals 5.044.720 hluti í JBT Marel Cor­por­ation (JBTM) í byrjun janúar eftir yfir­töku John Bean Technologies á Marel.

Miðað við gengi JBTM í morgun er virði hlutanna 85,3 milljarðar en fjár­festingafélagið þurfti þó að af­henda stóran hluta af þessum hlutum til lán­veit­enda.

Sam­kvæmt flöggunartilkynningu sem birt var í morgun af­henti Eyrir Invest lán­veit­endum sínum 1.676.487 hluti í JBTM til endur­greiðslu á láni. Markaðsvirði umræddra hluta nemur um 28,3 milljörðum króna miðað við núverandi gengi JBTM.

Um er að ræða lán sem fjár­festingafélagið tók í lok árs 2022 er JNE Partners og The Bau­post Group lögðu Eyri til 175 milljónir evra, eða um 25 milljarða á þáverandi gengi.

JNE Partners er fjár­festingarfélag sem stað­sett er í London og The Bau­post Group er sjóðastýringarfélag sem stofnað var 1982 og er með höfuðstöðvar í Boston í Bandaríkjunum.

Sam­kvæmt árs­reikningi Eyris bar lánið 15% nafn­vexti en sjóðirnir tveir áttu rétt allt að 8% hlut í Marel frá Eyri innan fjögurra ára yrði lánið ekki endur­greitt.

Lánið var eitt af því sem evrópski vogunar­sjóðurinn Teleois Capi­tal Partners flaggaði í harðorðu bréfi til stjórnar Marelsí tengslum við yfir­tökuna í lok nóvember 2023 en að mati Teleios hefði lánið átt að vera átt að vera viðvörunar­merki um óstöðug­leika hjá stærsta hlut­hafa Marels og vera til­efni til frekari um­fjöllunar.

Að loknu upp­gjöri og endur­greiðslu á fyrr­greindu láni er Eyrir Invest hf. nú eig­andi að 3.368.233 hlutum í JBTM.

Virði eftir­standandi hlutar Eyris í hinu sam­einaða félagi eftir lána­greiðsluna er því 56,9 milljarðar króna.