Alma íbúðafélag segir að frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra um breytingar á húsaleigulögum sé til þess fallið að draga úr samningsfrelsi aðila á leigumarkaði.
Að mati félagsins sé afar slæmt fyrir leigumarkaðinn að leggja ofuráherslu á að sögulegt leiguverð sé rétta leiguverðið á nýjum samningum.
Frumvarpið er byggt á tillögum starfshóps ráðherra en megináherslur þess eru sagðar vera að stuðla að langtímaleigu, auka fyrirsjáanleika um leiguverð, koma á fót almennri skráningarskyldu og efla kærunefnd húsnæðismála.
Í umsögn Ölmu segir að það sé vissulega að finna göfug markmið í lagafrumvarpinu en félagið setur þá varnagla við ýmis atriði.
„Síðustu fjögur árin hefur verið nokkuð ójafnvægi á fasteignamarkaði sem hefur komið fram bæði í leiguverði og fasteignaverði. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að fasteignamarkaður sé sveiflukenndur því það tekur að lágmarki 3-4 ár að skipuleggja, hanna og byggja fjölbýlishús en eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði er yfirleitt miklu kvikari að breytast,” segir í umsögn Ölmu sem Gunnar Þór Gíslason stjórnarformaður er skrifaður fyrir.
Segir félagið að þótt til skemmri tíma fari leiguverð eftir samspili framboðs og eftirspurnar hlýtur það að vera óumdeilt að til lengri tíma verður leiguverð að endurspegla fasteignaverð, vaxtastig og rekstrarkostnað húsnæðis.
Ef leiguverð að frádregnum rekstrarkostnaði stendur til lengri tíma ekki undir eðlilegum vöxtum af markaðsvirði húsnæðisins sem leigt er þá mun framboð leiguhúsnæðis á almennum markaði einfaldlega dragast saman, að mati félagsins.
„Forræðishyggjan svífur yfir vötnum”
Segir Alma þetta sjást skýrt í ákvörðun Heimstaden, stærsta íbúðaleigufélagsins, að hætta starfsemi á Íslandi.
Það sem aðallega einkennir þó frumvarpið að mati Ölmu er viðleitni til að draga úr samningsfrelsi aðila á leigumarkaði.
„Skerðing á samningsfrelsi kemur m. a. fram í að banna verðtryggingu á tímabundnum leigusamningum til 12 mánaða eða skemmri tíma og þá ofuráherslu á að sögulegt leiguverð sé rétta leiguverðið á nýjum samningum. Frumvarpið er í raun að færa ákvörðun leiguverðs úr höndum leigutaka og leigusala yfir til þriggja manna kærunefndar húsamála,” segir í umsögn Ölmu.
„Forræðishyggjan svífur einnig yfir vötnum í öðrum ákvæðum s.s. lagaskyldu til að nota eyðublöð frá HMS í samskiptum milli leigusala og leigutaka. Það er ekki laust við að upp vakni hughrif um austurþýska embættismenn með gúmmístimpla á lofti. Það er sorglegt að þurfa að minna á það árið 2024 að skerðing á samningsfrelsi myndar frekara ójafnvægi á markaði,” segir þar enn frekar.
Hægt er að lesa umsögn Ölmu hér.