Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 19,9% frá yfirstandandi ári en til samanburðar hækkaði fasteignamat um 7,4% í fyrra. Heildarmat fasteigna á Íslandi verður 12.627 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati Þjóðskrár Íslands fyrir árið 2023. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þjóðskrá.
Fasteignamat skapar grundvöll fyrir álagningu opinberra gjalda og myndar stofn fasteignagjalda og erfðafjárskatts. Sem dæmi leggur Reykjavíkurborg fasteignaskatt á íbúðir sem nemur 0,18% af fasteigamati. Þegar kemur að atvinnuhúsnæði er hlutfallið 1,60% hjá borginni.
Samanlagt mat íbúða á landinu öllu hækkar um 23,6% á milli ára og verður um 9.126 milljarðar. Þar af hækkar sérbýli um 25,4% en fjölbýli um 21,6%. Almennt er hækkun á íbúðarmati á höfuðborgarsvæðinu 23,6% en 23,7% á landsbyggðinni.
Fljótsdalshreppur, Árborg og Hveragerði draga vagninn
Fasteignamat íbúða hækkar mest í Fljótsdalshreppi en þar hækkar íbúðarmatið um 38,9%. Hækkunin nemur 36,6% í Sveitarfélaginu Árborg og í Hveragerðisbæ.
Minnstu hækkanir á íbúðamati eru í Dalvíkurbyggð þar sem fasteignamat íbúða hækkar um 6,2%. Í Hörgársveit og Skútustaðahreppi hækkar matið um 8,5%.
Sumarhús hækka um 20,3%
Fasteignamat sumarhúsa fyrir árið 2023 hækkar um 20,3% þegar litið er á landið í heild. Mesta hækkunin er á höfuðborgarsvæðinu þar sem sumarhús hækka um 28,6% en minnst á Norðurlandi-eystra þar sem hækkunin er um 9%.
Fasteignamat sumarhúsa á meðal sveitarfélaga hækkar mest í Langanesbyggð þar sem mat hækkar um 40,6% en mest lækkun er í Dalabyggð en þar lækkar fasteignamatið um 15,2%.
Atvinnuhúsnæðis hækkar um 10,2%
Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 10,2% á landinu öllu. Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 9,6% á höfuðborgarsvæðinu en um 11,5% á landsbyggðinni.