Víetnamski fasteignasalinn Truong My Lan hefur tapað áfrýjun sinni í dauðadómsmáli en hún mun hafa skipulagt stærstu bankasvik í heimi. Truong berst nú fyrir lífi sínu til að greiða til baka 75% af því sem hún stal í von um að minnka dóm hennar í lífstíðarfangelsi.

Í apríl á þessu ári komst dómstóll í Víetnam að þeirri niðurstöðu að Truong My Lan hefði tekið lán upp á meiri 44 milljarða dala á tíu ára tímabili frá Saigon Commercial Bank.

Saksóknarar segja að 27 milljarðar dala af þeirri upphæð hafi verið misnotaðir og fóru 12 milljarðar beint til hennar, sem var það sem hún var dæmd til dauða fyrir. Hún er þá ein af örfáum konum í Víetnam til að vera dæmd til dauða fyrir hvítflibbaglæp.

Dómstóll í landinu sagði í dag að enginn grundvöllur væri fyrir að draga úr dauðarefsingu, hins vegar gæti hún sloppið við aftöku ef hún skilar níu milljörðum dala til baka. Truong getur þó enn beðið forsetann um að sýna henni miskunn.

Truong My Lan fæddist inn í kínversk-víetnamska fjölskyldu í höfuðborginni Ho Chi MInh City. Hún byrjaði að selja snyrtivörur með móður sinni en keypti svo land og eignir eftir að víetnamski kommúnistaflokkurinn kom af stað efnahagsumbótum árið 1986. Á tíunda áratugnum átti hún mörg hótel og veitingastaði.

Þegar hún var dæmd í apríl var hún stjórnarformaður fasteignafyrirtækisins Van Thinh Phat Group. Ríkisstjórnin hafði hins vegar sett af stað herferð gegn spillingu sem bar nafnið Blazing Furnaces undir forystu Nguyen Phu Trong, þáverandi aðalritara kommúnistaflokksins.

Truong var sakfelld í öllum 85 liðum og er talið að ríkisbankinn hafi eytt mörgum milljörðum dala í að endurfjármagna Saigon Commercial Bank. Lögfræðingar hennar segja að hún sé að gera allt sem hún getur til að endurgreiða upphæðina sem hún skuldar.