Velferðarsvið Reykjavíkurborgar kannast ekki við að stjórn Félagsbústaða hafi lagt inn tillögu til velferðarráðs um 1,1% hækkun á leiguverði félagsins, líkt og kom fram í skýrslu stjórnar í ársreikningi Félagsbústaða.

Velferðarsvið hefur sent Félagsbústöðum ábendingu vegna þessa, að því er kemur fram í tilkynningu á vef borgarinnar.

Viðskiptablaðið fjallaði í gær um fjárhagsstöðu Félagsbústaða, dótturfélags Reykjavíkurborgar sem leigir út um 3.100 íbúðir. Í nýbirtum ársreikningi félagsins kemur fram að langtímaáætlanir um rekstur og sjóðstreymi Félagsbústaða beri með sér að félagið mun ekki geta staðið undir aukinni greiðslubyrði lána sem tekin eru til fjármögnunar endurbóta og meiriháttar viðhalds.

Þá sýni niðurstaða ársins að tæpar 400 milljónir króna hafi vantað upp á í árslok til að veltufé frá rekstri nægi fyrir afborgunum langtímalána.

Stjórn Félagsbústaða sagði að samhliða uppfærslu á leiguverðsgrunni á fyrri hluta árs 2023 hafi hún lagt til hækkun leiguverðs um 1,1%. „Tillagan fékk ekki brautargengi í velferðarráði,“ segir í skýrslu stjórnar.

Haraldur Flosi Tryggvason, fráfarandi stjórnarformaður Félagsbústaða, sagði í tíufréttum RÚV í gærkvöldi að ekki hefði fengist heimild hjá velferðarráði borgarinnar til þess að hækka leiguverð um 1,1%. Núverandi áætlun meti hækkunarþörf á 6,5%.

Undarleg vinnubrögð

Sandra Hlíf Ocares, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem situr í velferðarráði, segir í samtali við Viðskiptablaðið að henni hafi brugðið við lestur ársreiknings Félagsbústaða.

Hún fór yfir allar fundargerðir velferðarráðs síðastliðið ár til að ganga úr skugga um að tillagan hafi ekki farið fram hjá sér. Hvergi er þó minnst á tillögu Félagsbústaða um 1,1% hækkun leiguverðs. Einungis er að finna tillögu um breytingu á leiguverðsgrunni Félagsbústaða sem velferðarráð samþykkti í september.

„Mér finnst einkennilegt að því sé slegið upp í skýrslu stjórnar eins og það hafi staðið á velferðarráði að hækka leiguverð þegar Félagsbústaðir lögðu ekki formlega fram slíka tillögu á borð velferðarráðs,“ segir Sandra Hlíf.

„Þetta kemur skýrt fram í fundargerðum ráðsins sem hægt er að nálgast á vef borgarinnar og einnig bendi ég á fundargerðir stjórnar félagsbústaða. Hvergi kemur fram í þeim að svona tillaga hafi verið lögð fyrir velferðarráð eða að það eigi að leggja hana fram.“

Ekki náðist í Harald Flosa við vinnslu fréttarinnar.