Rekstrartekjur kynlífstækjaverslunarinnar Blush jukust um tæplega 50% milli ára eða úr 413 milljónum króna árið 2020 í 602 milljónir árið 2021. Samkvæmt ársreikningi félagsins nam EBITDA félagsins 59,3 milljónum króna árið 2021 samanborið við 83 milljónir árið áður og endanleg afkoma nam 49 milljónum króna. Þá var eiginfjárhlutfallið 57%.
Fyrirtækið opnaði nýja verslun á reikningsárinu 2021 en hún er staðett á Dalvegi í Kópavogi. „Við opnuðum verslunina í apríl 2021 og það gekk vonum framar og mjög skemmtilegt ævintýri en ég skal alveg viðurkenna það að það tók smá á bankareikninginn. Þetta eru 860 fermetrar og við þurftum að innrétta allt upp á nýtt“ segir Gerður Arinbjarnar, stofnandi og eigandi Blush.
Gerður var valin markaðsmanneskja ársins árið 2021 af Ímark þá jafnframt var Blush valið besta íslenska vörumerkið í keppni á vegum Brandr. Aðspurð hver lykillinn sé að góðri markaðssetningu segir Gerður „ég held að það sé að ég sé ófeimin og óhrædd við að fara aðrar leiðir í markaðsstarfi. Ég velti því fyrir mér hvort að það hafi áhrif á mig sem markaðasmanneskju að vera líka eigandi fyrirtækisins. Ég geri bara hlutina og stundum heppanst þeir og stundum ekki og fæ því að vera svona frjó og prófa nýja hluti.“
Hún segir einnig að rauði þráðurinn í markaðsstarfi fyrirtækisins sé að fræða og reyna að kynna fyrir fólki nýja veröld sem fylgir notkun kynlífstækja „Við erum að reyna að selja fólki fantasíuna“. Þá jafnframt segir hún þau leggja áherslu á að færa kynlíf fjær kláminu og nær kynheilbrigði.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun sem birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.