Alls munu 15 lífeyrissjóðir deila með sér eignarhaldi á leigufélaginu Heimstaden í gegn um sjóðinn SRE III slhf. sem sjóðastýringarfélagið Stefnir mun sjá um að reka, eftir vel heppnað útboð Stefnis þar sem áskriftir bárust fyrir öllum þeim 40 milljörðum sem sóst var eftir og rúmlega það.

Aðkoma sjóðanna er þó mjög mismikil og spannar frá 0,1% upp í 18,2% en sín á milli munu fimm stærstu eigendurnir – þriðjungur eigendanna – halda á 75% hlut.

„Fjársterkir langtímaeigendur eru mjög ákjósanlegir kaupendur að húsnæði sem kann að flýta fyrir uppbyggingu húsnæðis.“

Boðuð lagabreyting liðkaði fyrir

Nýboðuð löggjöf sem kveða mun á um mun hagstæðari flokkun leigufélaga innan fjárfestingarheimilda sjóðanna hafði sitt að segja við að fá lífeyrissjóðina að borðinu en greinargerð frumvarpsins er afar jákvæð gagnvart hugmyndinni um aukna aðkomu þeirra. Segir þar meðal annars:

„Lengi hefur verið talað um skort á leiguhúsnæði á Íslandi og skort á öðrum valmöguleikum til búsetu en kaup á íbúðarhúsnæði. Með heimildinni skapast auknar forsendur fyrir því að lífeyrissjóðir beini fjármagni í fjárfestingu á leiguhúsnæði sem er til þess fallið að halda aftur af verðhækkunum á fasteignamarkaði. Fjársterkir langtímaeigendur eru mjög ákjósanlegir kaupendur að húsnæði sem kann að flýta fyrir uppbyggingu húsnæðis.“

© vb.is (vb.is)

Umframeftirspurn og fjárfestingarheimildir klipptu þá stærstu niður

Samkvæmt því fyrirkomulagi sem Stefnir lagði upp með mun SRE III slhf. halda utan um eignarhald og rekstur leigufélagsins, og verður svo sjálfur í eigu sjóðanna 15.

Endanleg dreifing eignarhaldsins réðist að miklu leyti af fimmtungshámarki á eignarhlutdeild hvers lífeyrissjóðs samkvæmt núgildandi lögum, þar sem þrír stærstu eigendurnir – sem jafnframt eru þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins – skráðu sig allir fyrir þeirri upphæð, og voru svo skertir sökum umframeftirspurnar.

Ekkert hámark verður hins vegar á eignarhlutdeild hvers sjóðs nái boðað frumvarp um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða í leigufélögum fram að ganga, en um það atriði segir í greinargerðinni:

„Þá kann að vera kostur að við fjármögnun á félagi á íbúðamarkaði að hópur fjárfesta sé ekki of stór og hámörk mótaðilaáhættu kunna að ákveða hámarksfjárfestingu lífeyrissjóðs í félagi þannig að það borgi sig ekki fyrir hann að taka þátt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í gærmorgun. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.