Fimmtán íslensk félög eru á nýjum lista alþjóðlega vísitölufyrirtækisins FTSE Russell yfir félög í vísitölunum sínum. FTSE Russell tilkynnti í vor að ákveðið hefði verið að færa Ísland upp í flokk nýmarkaðsríkja (e. Secondary Emerging Markets). Ný flokkun mun taka gildi við opnun markaða mánudaginn 19. september næstkomandi.
Fleiri íslensk félög eru nú flokkuð í hærri stærðarflokka en í mars síðastliðnum. Arion banki, Íslandsbanki og Marel eru öll flokkuð sem stór í dag en í mars voru engin íslensk félög í þeim flokki. Þá flokkast Eimskipafélag Íslands, Festi, Hagar, Icelandair, Kvika banki, Reitir og Síminn sem meðalstór, en í mars flokkuðust einungis tvö íslensk félög sem meðalstór. Ætla má að hærri stærðarflokkar auki líkur á fjárfestingu erlendra fjárfesta.
Að auki er vægi íslenska markaðarins í All-World og Nýmarkaðs vísitölunum hærra en áður var talið. Áætlað vægi íslands í Global All Cap er 0,0139%, í Emerging All Cap er það 0.1367%, í All-World er það 0.0143% og síðan 0.1404% í Emerging.