Fjárfestadagur Startup SuperNova fer fram föstudaginn 9. september en viðskiptahraðalinn stendur yfir í fimm vikur og er markmiðið að hraða framgangi þeirra fyrirtækja sem taka þátt og gera þau fjárfestingarhæf að hraðlinum loknum. Þetta kemur fram í tilkynningu. Á fjárfestadeginum kynna 10 teymi sem tekið hafa þátt í hraðlinum í sumar sprotafyrirtæki sín fyrir fullum sal af fjárfestum og öðrum gestum.

Startup SuperNova er stökkpallur fyrir sprotafyrirtæki og vettvangur til tengslamyndunar við aðila í atvinnulífinu, reynda mentora og frumkvöðla sem hafa yfir að ráða þekkingu og reynslu á sprotaumhverfinu. Í ár hófst hraðallinn á þriggja daga Masterclass þar sem fjölmargir sérfræðingar, fagfólk og frumkvöðlar í íslensku atvinnulífi miðluðu þekkingu sinni og reynslu til 56 sprotafyrirtækja. Tíu af þeim fyrirtækjum voru svo valin til áframhaldandi þátttöku í Startup SuperNova.

Fyrirtæki sem valin voru í hraðalinn fengu fullbúna vinnuaðstöðu í hugmyndahúsinu Grósku í Vísindagörðum, fræðslu, þjálfun og ráðgjöf frá reyndum frumkvöðlum, fjárfestum og öðrum sérfræðingum auk stuðnings við að koma viðskiptahugmynd sinni á framfæri og efla tengslanetið.

Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Klaks – Icelandic Startups

„Startup SuperNova hefur sannað sig sem gríðarlega mikilvægan vettvang í sprotaferlinu og það verður spennandi að sjá kynningarnar frá teymunum tíu. Undanfarna tvo áratugi hefur KLAK stutt við og hjálpað fjöldamörgum sprotum að vaxa og dafna, og má þar nefna Meniga, Controlant og PLAIO sem dæmi. Sprotafyrirtækin tíu voru valin úr hópi 56 umsókna og það er aldrei að vita nema næsta íslenska stórfyrirtæki leynist þar á meðal.”