Paloma Partners, einn elsti vogunarsjóður Bandaríkjanna, hefur átt í töluverðum vandræðum með að greiða fjárfestum sem vilja segja skilið við sjóðinn en slæm ávöxtun síðustu ára hefur leitt af sér töluverðan flótta.
Samkvæmt The Wall Street Journal hefur sjóðurinn þurft að greiða fjárfestum með því að gefa út skuldaviðurkenningar sem að sögn bandaríska viðskiptatímaritsins er mjög óvanaleg hegðun hjá vogunarsjóði.
Í bréfi til fjárfesta segir Donald Sussman forstjóri og fjárfestingastjóri félagsins að sjóðurinn væri ekki með nægilega mikið af auðseldum eignum né handbært fé til að mæta kröfum fjárfesta eins og staðan væri núna.
Vogunarsjóðurinn var stofnaður árið 1981 og hefur átt þátt í að ýta öðrum stærri sjóðum úr vör eins og til dæmis D.E. Shaw.
Paloma Partners vakti mikla athygli skömmu eftir stofnun en sjóðurinn var einn af þeim fyrstu til að nýta sér tölvutæknina og algrím í fjárfestingaákvörðunum.
Ávöxtun sjóðsins í ár stefnir í að vera um 4% sem er á pari við meðaltalsávöxtun síðustu þriggja ára. S&P 500 vísitalan hefur hækkað um 27% á árinu.
„Við þurfum að horfast í augu við það að frammistaða okkar síðustu ár hefur ekki verið í samræmi við okkar háu viðmið,” segir Sussman í bréfi til fjárfesta.