Fjármagn streymdi inn í hlutabréfasjóði í október síðastliðnum. Alls námu kaup á hlutdeildarskírteinum tæplega 1,9 milljörðum króna, en innlausn hlutdeildarskírteina 1,1 milljarði króna.

Því nam hreint innflæði í hlutabréfasjóði 838 milljónum króna í október. Um viðsnúning er að ræða því átta mánuði á undan nam hreint útflæði samtals 4,2 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í tölum Seðlabankans, um eignir verðbréfa- og fjárfestingasjóða, sem birtar voru í síðustu viku.

Þróunin hélt áfram í nóvember en að sögn markaðsaðila sem Viðskiptablaðið ræddi við hefur töluvert fjármagn streymt inn í hlutabréfa- og skuldabréfasjóði að undanförnu.

„Það kom smá hik í aðdraganda kosninga, annars hefur flæðið haldið áfram. Flestir eiga von á vaxtalækkun í febrúar og enn eru mjög stórar fjárhæðir sitjandi inni á innlánsreikningum.

Þegar vextir á bestu bankareikningum verða t.d. komnir niður í 6% verður orðinn mikill munur á þeim samanborið við vexti í lausafjársjóðum. Þessi vaxtamunur mun koma hreyfingu á hlutina, sem viðheldur innflæði á skuldabréfa- og hlutabréfamarkaði,“ segir Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða.

Flykkjast í skuldabréfasjóði

Samkvæmt gögnum Seðlabankans var nettó innflæði í skuldabréfasjóði 2,7 milljarðar króna í október. Kjartan segir að það hafi verið nokkuð stöðugt útflæði úr slíkum sjóðum síðustu tvö og hálfa árið, þangað til um mitt síðasta sumar.

„Frá því í ágúst hefur flæðið verið að snúa við, og verið talsvert innflæði í sjóðina, og nýlegar vaxtalækkanir hafa stutt við það. Innlánsreikningar voru á tímabili með hátt í 10% vexti en fara nú ört lækkandi. Á sama tíma er ávöxtunarkrafa skuldabréfa að lækka og verð þeirra að hækka, og fjárfestar vilja koma sér á skuldabréfamarkað á meðan enn er von á verðhækkunum sem fylgja lækkandi vöxtum.“

Hann segir flæðið hafa breyst þegar ljóst var að vaxtalækkana var að vænta.

„Hlutabréfamarkaðurinn hefur lengi verið þungur. Þegar verðbólga og vextir fóru á flug hefur fólk að miklu leyti verið að ganga á sparnað sem byggðist upp í Covid og á sama tíma haldið peningnum inni á innlánsreikningum.

Myndin breyttist þó um mitt sumar þegar styttist í vaxtalækkunina sem fór fram í október. Markaðurinn var sammála um að vextir væru að fara að lækka, sem myndi síðan hafa jákvæð áhrif á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði. Þá fór peningur aftur að flæða inn í þessa sjóði.“

Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.