Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, SSF, eru meðal þeirra sem eiga enn eftir að semja á almenna vinnumarkaðnum. Samningur þeirra við SA rann út í lok janúar en SSF hafa vísað deilunni til ríkissáttasemjara.
Meðal þess sem tekist er á um er kostnaðarmat samninganna en SSF hafa vísað til þess að kostnaðarmat á öðrum samningum sem gerðir hafa verið sé í kringum 17%.
Er þeim boðið upp á sömu hækkun og kveðið er á um í Stöðugleikasamningnum: 3,25% launahækkun í ár og 3,5% hækkun á ári næstu þrjú ár, þó að lágmarki 23.750 krónur á ári.
Starfsmenn fjármálafyrirtækja fá þó almennt hærri laun en aðrir starfsmenn á almenna vinnumarkaðnum og því er hækkunin hlutfallslega minni heilt yfir.
„Kostnaðurinn við þá breytingu er um 14,5% og við vorum að vona að við gætum fyllt upp í afganginn af svigrúminu í átt að 17% í sátt og samlyndi. Svo er greinilega ekki, SA stendur fast á launastefnu sinni sem felur í sér að félagsfólk í SSF fái hlutfallslega minna en aðrir í þriðja skiptið í röð,“ segir í tilkynningu á vef samtakanna.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.