Hagnaður fjögurra stóru endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækjanna hér á landi, KPMG, Deloitte, Ernst & Young og PwC, nam samtals um 901 milljón króna á síðasta reikningsári og dróst saman um 52 milljónir eða 5,5% á milli ára. Er þetta í fyrsta skipti í töluverðan tíma sem samanlagður hagnaður fyrirtækjanna dregst saman en á milli reikningsáranna 2014 og 2018 tæplega tvöfaldaðist afkoman úr 492 milljónum í 953 milljónir.
Mestur var hagnaður Deloitte eða 359 milljónir en dróst þó saman um 41 milljón milli ára. KPMG hagnaðist um 314 milljónir og jókst hagnaður fyrirtækisins um 16 milljónir króna. Þá nam hagnaður PwC 158 milljónum og jókst um 9 milljónir á meðan hagnaður Ernst & Young nam 70 milljónum og dróst saman um 36 milljónir á milli ára. Hafa ber í huga að ekkert félaganna gerir upp fyrir reikningsárið 1. janúar til 31. desember. Umrætt uppgjörstímabil Deloitte er frá 1. júní 2018 til 31. maí 2019, KPMG frá 1. október til 30. september, og þá er uppgjörstímabil PwC og Ernst & Young frá 1. júlí til 30. júní.
Tekjur fyrirtækjanna námu samtals um 12,35 milljörðum króna og jukust lítillega á milli ára eða um 3,3%. Frá árinu 2014 hafa samanlagðar tekjur fyrirtækjanna hækkað um 45,5% en hækkun síðasta árs var hlutfallslega töluvert minni en árin á undan. Aukning í tekjum síðustu fimm ár hefur verið álík milli fyrirtækja eða um 46-47% ef undan er skilið Ernst & Young þar sem tekjur hafa aukist um þriðjung á síðustu fimm árum.
KPMG og og Deloitte eru sem fyrr langstærstu fyrirtækin í greininni en samanlagðar tekjur þeirra námu tæplega 9,6 milljörðum króna og standa því undir um 77,5% af heildarveltu fyrirtækjanna fjögurra. Tekjur KPMG námu 5,1 milljarði á síðasta reikningsári og lækkuðu lítillega á milli ára. Tekjur Deloitte námu rúmlega 4,4 milljörðum og jukust um 250 milljónir eða 6% milli ára auk þess sem tekjur Ernst & Young námu rétt rúmum milljarði og lækkuðu lítillega á milli ára. Þá námu tekjur PwC 1.762 milljónum og jukust um 181 milljón á milli ára eða 11,4%.
Greiddu 9 milljarða í laun
Hafa þarf í huga þegar rekstur fyrirtækjanna er skoðaður að hagnaður þeirra gefur ekki endilega fullkomna mynd af afkomu þar sem nokkur hluti starfsmanna eru einnig eigendur félaganna og geta því að vissu marki valið á milli arðgreiðslna eða launa fyrir vinnu sína. Launakostnaður er samt sem áður langstærsti útgjaldaliður fyrirtækjanna en hann nam tæplega 9 milljörðum króna og jókst um 459 milljónir á milli ára.
Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .