Sprotafyrirtækið Garden.io, sem var stofnað af þremur Íslendingum, hefur safnað 16 milljónum dollara, um tveimur milljörðum króna, í nýtt hlutafé í svokallaðri A fjármögnunarumferð sem leidd er af bandarísku fjárfestingarfélögunum 468 Capital og Sorenson Ventures.

Félagið var stofnað árið 2018 í Berlín af þeim Jóni Eðvaldi Vignissyni, Þórarni Sigurðssyni og Eyþóri Magnússyni. Félagið hefur vaxið hratt og telja viðskiptavinir þess nú meðal annars einn stærsta drykkjarvöruframleiðanda heims og mörg þekkt fyrirtæki í Kísildalnum í Bandaríkjunum.

„Þetta er staðfesting á því að það er vit í þessari hugmynd og því sem við erum að gera og um leið er þetta tækifæri til að stækka teymið töluvert. Við vorum þrettán starfsmenn í byrjun árs en stefnum á að vera fjörutíu í lok árs svo það verður svolítil keyrsla,“ segir Jón Eðvald, sem jafnframt er framkvæmdastjóri Garden.

Jón segir að þremenningarnir hafi allir verið saman í Menntaskólanum í Reykjavík en kynntust ekki af alvöru fyrr en síðar, þegar þeir voru allir búsettir í Berlín. „Þar byrjar þessi hugmynd að vaxa í huga okkar. Árið 2017 förum við virkilega að tala um þetta og erum byrjaðir af fullum krafti árið 2018. Við vorum mjög smátt teymi lengi vel að prófa okkur áfram og sjá hvernig þetta gæti passað inn í mjög flókið vistkerfi. Hægt og rólega fóru fleiri og fleiri að nota lausnina,“ segir Jón.

„Ég hef stundum sagt að þetta sé forrit fyrir forritara. Við aðstoðum bæði stór og smá fyrirtæki við þróun á ferlum og til að gera forrit skilvirkari fyrir skýjakerfi – allt frá Póstinum á Íslandi og upp í Fortune 500 fyrirtæki í Bandaríkjunum. Þetta á við um öll bakendakerfi sem keyrð eru í skýjum, hvort sem það er hjá Amazon, Google eða öðrum. Okkar hlutverk er að gera þróunar- og prófunarferla skilvirkari og alla upplifun betri og einfaldari fyrir forritara.“

Nánar er fjallað um Garden í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Ítarlegt sérblað um fasteiganamarkaðinn fylgir Viðskiptablaðinu.
  • Fjallað eru um sölu Nóa-Síríusar til norska matvælarisans Orkla.
  • Greining á stöðu lánamarkaðarins og horfum í hagkerfinu fyrir komandi kjarasamninga.
  • Íslenskir veitingamenn veðja á ítalskt þema en fjöldi ítalskra staða opna á næstunni.
  • Stjórnvöld skoða nú hvort hrávöru- og fæðuöryggi sé ógnað vegna óróleika í alþjóðamálum.
  • Greining á nýjum áhættuvogum íbúðalána bankanna sem gætu leitt af sér bætt kjör þeirra eignameiri.
  • Starfsmenn hugbúnaðarfyrirtækisins Aranja vita laun vinnufélaganna sem þykir hafa gefist vel.
  • Lóa Fatou Einarsdóttir, nýr forstöðumaður rekstrarsviðs Good Good, er tekin tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um eilífa sundrungu vinstri manna.
  • Óðinn skrifar um hrakfarir Veðurstofunnar.