Ljóst er að gefa þurfi verulega í ef að markmið stjórnvalda um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040 eiga að ganga eftir. Langt og óskilverkt ferli leyfisveitinga fyrir virkjanir hefur meðal annars verið gagnrýnt.

„Það er mjög mikilvægt að stjórnsýslan sé fyrirsjáanleg og skilvirk þannig að markaðurinn geti þróast og tekið breytingum samhliða aukinni eftirspurn eða hvers konar breytingum á markaðnum,“ segir Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku.

„Það er ekki verið að biðja um neinn afslátt af kröfum, þvert á móti, bara að vanda vel til verka þegar í upphafi ferlanna. Það eru því miður dæmi um það að stjórnvöld og stofnanir virði ekki eigin lögboðna tímafresti í stjórnsýslunni og það er mjög bagalegt.“

Kallað hafi verið eftir því að samrýma stjórnsýsluferla þannig mál séu ekki í gangi á mörgum stöðum.

Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku.

„Það eru mjög margir aðilar sem að koma að einu svona verkefni og hætt við því að ef að einn hlekkur í keðjunni er ekki að standa sig að þá dragist allt verkefnið. Einhvers konar gagnsæi á því hvernig aðilar eru að standa sig er því mikilvægt, það veitir ákveðið aðhald á alla aðila.“

Eins og staðan sé í dag liggi fyrir að verkefni í þessum geira taki mörg ár.

„Það kerfi sem við höfum haft varðandi til dæmis rammaáætlun og hvernig hún var stopp í langan tíma skilur eftir sig ákveðið skarð í þróun markaðarins. Það er mikilvægt að sá hluti sé líka virkur þannig að fyrirtækin sem telja sig vera með góð verkefni og vilja fara af stað til þess að þjónusta sína viðskiptavini geti hafið framkvæmdir og starfsemi.“

Að sögn Finns ættu stjórnvöld að leggja vel við hlustir þegar fyrirtæki á markaðinum tala um stöðuna.

„Þetta gerist ekki sjálfkrafa og ég held að það sé mjög mikilvægt að stjórnvöld styðjist við þær greiningar sem eru gerðar af til þess bærum aðilum á stöðunni á markaðinum. Hvort sem að það er Landsnet eða Orkustofnun, þá þarf að taka mark á þeim greiningum sem eru að koma til þess að leggja niður stefnu og áherslur til þess að við komumst í mark með þau markmið sem búið er að setja.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á föstudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.