Flugfélagið Atlanta hefur verið í miklum fjárfestingum undanfarin ár. Eins og lesendur Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar vita þá hlaut Baldvin Már Hermannsson og flugfélagið Atlanta Viðskiptaverðlaunin árið 2024.
„Á síðustu tveimur árum höfum við keypt fjórar Boeing 777 og þrjár Boeing 747 vélar og ein þeirra bættist í flotann núna í byrjun desember,“ segir Baldvin í ítarlegu viðtali í tímaritinu Áramótum, sem var að koma út.
„Þetta er heildarfjárfesting upp á um 150 milljónir dollara í flugvélum en við það bætast tugir milljóna dollara í yfirhalningu á hreyflum. Við höfum notað þann meðbyr sem við höfum haft undanfarin ár til að fjárfesta og byggja Atlanta samstæðuna upp. Það hefði alveg verið hægt að setjast niður og draga aðeins andann í fyrra en við ákváðum að halda striki. Fjárfestingin í þessum flugvélum er það sem mun gera okkur kleift að halda áfram á sömu braut næstu fjögur til sex árin í það minnsta.”
Með 17 flugvélar í rekstri
Atlanta er í dag með 17 flugvélar í rekstri. Þar af eru fjórar Boeing 777-300ER farþegavélar og þrettán Boeing 747-400 fraktvélar. Þetta eru stórar og öflugar vélar sem bera allt að 495 farþega eða 120 tonn af frakt. Til að setja þessar stærðir í samhengi fyrir lesendur þá ber Boeing 767-300, stærsta vel Icelandair, alls 262 farþega eða rétt um 50 tonn af frakt.
„Þetta eru stórar og öflugar vélar sem við erum með. Þær eru hannaðar til að fljúga langar leiðir og myndu ekki henta vel í flug til og frá Íslandi," segir Baldvin. „Leiðakerfið sem Atlanta er að þjónusta fyrir sína viðskiptavini er orðið feikilega víðfeðmt og beintengt slagkrafti heimshagkerfisins. Til marks um það flugum við alls til um 160 áfangastaða í 92 löndum á síðasta ári.”
Tæplega 1.500 starfsmenn
Stærstu starfsstöðvar flugfélagsins Atlanta eru í Riyadh og Jedda í Sádi-Arabíu og Liege í Belgíu.
„Leiðakerfi Atlanta er þannig uppbyggt að mikið af öllum okkar fraktflugum tengja inn og út úr Belgíu og að einhverju leyti Þýskalandi líka,“ segir Baldvin. „Vélar sem eru að koma frá Asíu og Mið-Austurlöndum koma til Belgíu og fara svo þaðan til Afríku eða Bandaríkjanna. Farþegavélarnar okkar eru í Sádi-Arabíu og fljúga þaðan til landa eins og Indónesíu, Pakistan og Indlands. Að auki eru fjórar fraktflugvélar gerðar út frá Sádi-Arabíu.”
Þrátt fyrir að stærstu starfsstöðvarnar séu í Sádi-Arabíu og Belgíu þá eru höfuðstöðvar Atlanta á Íslandi og samkvæmt Baldvini er eru ekki uppi neinar hugmyndir um annað en að þær verði hér á landi áfram.
„Á skrifstofu okkar í Hlíðasmára í Kópavogi starfa um 130 manns en í heildina eru starfsmennirnir 1.400-1.500 talsins af yfir 60 mismunandi þjóðernum. Við erum með um 380 flugmenn, þar af eru um 100 íslenskir flugmenn, sem starfa samkvæmt íslenskum kjarasamningi. Við erum með um 550 flugfreyjur, 150 flugvirkja auk fjölmargra annarra starfsmanna.”
300 Íslendingar í vinnu
Hjá Atlanta starfa alls um 300 Íslendingar. Það skiptir því töluverðu máli fyrir þjóðarbúið að Atlanta sé með höfuðstöðvar á Íslandi.
„Þó Atlanta fljúgi oft undir radarnum hér heima þá skiptum við heilmiklu máli í efnahagslegu tilliti. Hjá samstæðunni starfa um 300 Íslendingar í hálaunastörfum víðsvegar um heiminn. Á árinu 2024 verður heildarlaunakostnaður vegna íslenskra launþega um 6,6 milljarðar króna. Gjöld Atlanta til ríkisins í formi staðgreiðslu, tryggingagjalds og tekjuskatts munu nema um 4,3 milljörðum – svo það munar um minna.”
Höfuðstöðvarnar verða á Íslandi
„Það er að mörgu leyti erfitt að gera út frá Íslandi, því stór hluti af okkar fólki þarf að fara úr landi til að vinna,” segir Baldvin. „Það er tímafrekt og dýrt. Staða alþjóðasamninga Íslands hjálpar heldur ekki alltaf til. Þetta breytir því samt ekki að hér viljum við vera með okkar höfuðstöðvar og hér ætlum við að vera. Á Íslandi eru ræturnar og hér slær hjarta fyrirtækisins.