Bjarnfreður H. Ólafsson, lögmaður og eigandi hjá LOGOS, telur ljóst að fyrirhugaðar breytingar á tekjuskattslögum, sem fjármálaráðherra boðar til að liðka fyrir erlendri fjárfestingu, séu brýnar og skipti miklu máli. Fyrst, eða að minnsta kosti samhliða, þurfi þó að skapa traust um skattframkvæmd hér á landi.

„Á meðan það er ekki gert þá skiptir ný og uppbyggileg lagasetning litlu máli, því miður,“ segir í umsögn hans við áformaskjal ráðherra.

Bjarnfreður, sem var meðal þeirra níu lögmanna sem gagnrýndu starfshætti Skattsins í pistli sem birtist í Morgunblaðinu um helgina, segir að út frá störfum sínum og í samtölum við keppinauta á öðrum ráðgjafastofum geti hann fullyrt að ráðgjafafyrirtæki landsins geti nú sjaldnast gefið út lögfræðiálit án nýrra fyrirvara.

Bjarnfreður H. Ólafsson, lögmaður og eigandi hjá LOGOS, telur ljóst að fyrirhugaðar breytingar á tekjuskattslögum, sem fjármálaráðherra boðar til að liðka fyrir erlendri fjárfestingu, séu brýnar og skipti miklu máli. Fyrst, eða að minnsta kosti samhliða, þurfi þó að skapa traust um skattframkvæmd hér á landi.

„Á meðan það er ekki gert þá skiptir ný og uppbyggileg lagasetning litlu máli, því miður,“ segir í umsögn hans við áformaskjal ráðherra.

Bjarnfreður, sem var meðal þeirra níu lögmanna sem gagnrýndu starfshætti Skattsins í pistli sem birtist í Morgunblaðinu um helgina, segir að út frá störfum sínum og í samtölum við keppinauta á öðrum ráðgjafastofum geti hann fullyrt að ráðgjafafyrirtæki landsins geti nú sjaldnast gefið út lögfræðiálit án nýrra fyrirvara.

Æ oftar þurfi það að koma fram á fundum með erlendum fjárfestum að ekki sé hægt að svara mörgum grundvallarspurningum skattaréttar vegna réttaróvissu sem þróast hafi í íslenskri skattframkvæmd á undanförnum árum.

Hann segir þetta geta m.a. átt við það að lögbundnar endurgreiðslur séu afgreiddar seint eða hreinlega aldrei og fyrirtæki fái ekki ákvörðun um skráningu á virðisaukaskattsskrá svo mánuðum eða árum skiptir. Þá þurfi að útskýra að hefðbundin lögskýringarsjónarmið í skattarétti eigi bara stundum við í framkvæmd.

„Þá hafa mál þróast í átt að síauknu ógagnsæi,“ segir Bjarnfreður og bætir við að búið sé fjarlægja tengil á reglugerðasafn á heimasíðu Skattsins.

„Nánast engar fordæmisgefandi túlkanir (ákvarðandi bréf) eru birt lengur. Þá er beiðnum um bindandi álit ítrekað vísað frá án sýnilegrar réttlætingar. Þá er ekki einu sinni hægt að leggja allar upplýsingar á borð Skattsins, fá þaðan vel ígrundaða ákvörðun og treysta því að hún standi. Áralangri skattframkvæmd er einfaldlega breytt án nokkurrar annarrar ástæðu en breyttrar skoðunar hjá Skattinum, o.s.frv. Nýleg dæmi staðfesta þessa stöðu mála, um það verður varla deilt – þó vissulega geti einhverjum fundist þetta einhverra hluta vegna vera bara allt í lagi.“

Samtök iðnaðarins (SI) taka í umsögn sinni í sama streng og segja að of oft sé túlkunum á lagaákvæðum breytt í framkvæmd og ómögulegt sé að óska eftir útskýringum á túlkun á ákveðnum lagaákvæðum frá Skattinum fyrirfram.

Að mati samtakanna er nauðsynlegt að auka skýrleika í regluverki og framkvæmd þess. SI nefna sérstaklega að beiting skattyfirvalda á skattareglum taki of sjaldan mið af stöðu og raunveruleika sprota- og nýsköpunarfyrirtækja.

„Það er til lítils að breyta reglum ef skattayfirvöld beita túlkunum á lagaákvæðum sem samræmast ekki starfs- og rekstrarumhverfi fyrirtækja í tækni- og hugverkaiðnaði sem er um margt ólíkur öðrum rótgrónari atvinnugreinum.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um áform fjármálaráðherra sem birtist í Viðskiptablaði vikunnar.