Um tveir þriðju fjárfesta breska lyfjaframleiðandans AstraZeneca samþykktu í dag nýja starfskjarastefnu sem felur meðal annars í sér hækkun á hámarkslaunum forstjórans Pascal Soriot.

Að því er kemur fram í frétt Bloomberg munu heildarlaun hans samkvæmt nýsamþykktum breytingum nema allt að 19 milljónum punda, eða sem nemur 3,3 milljörðum króna, á þessu ári. Upphæðin samsvarar tíföldum grunnlaunum forstjórans.

Um tveir þriðju fjárfesta breska lyfjaframleiðandans AstraZeneca samþykktu í dag nýja starfskjarastefnu sem felur meðal annars í sér hækkun á hámarkslaunum forstjórans Pascal Soriot.

Að því er kemur fram í frétt Bloomberg munu heildarlaun hans samkvæmt nýsamþykktum breytingum nema allt að 19 milljónum punda, eða sem nemur 3,3 milljörðum króna, á þessu ári. Upphæðin samsvarar tíföldum grunnlaunum forstjórans.

Soriot er hæst launaði forstjóri skráðra félaga í Bretlandi en fyrir breytinguna var kveðið á um að hann gæti þénað allt að 16,8 milljónir punda.

Sambærilegar breytingar voru gerðar árið 2021 en þá voru um 40% hluthafa á móti hækkun launa hans. Sjálfur hefur Soriot, sem tók við sem forstjóri árið 2012, haldið því fram að hans laun væru óhagstæð í samanburði við forstjóra lyfjarisa í Bandaríkjunum og víðar.

Yfirmaður hjá GQG Partners, sem er meðal 20 stærstu hluthafa AstraZeneca, virtist taka undir það fyrr í vikunni. Í viðtali við Financial Times sagði hann að Soriot fengi allt of lítið borgað og benti þar á viðsnúning lyfjaframleiðandans undir hans stjórn en virði hlutabréfa AstraZeneca hefur aukist um 275% frá árinu 2012.