Grant Reid, forstjóri Mars hefur ákveðið að hætta störfum eftir átta ár. Súkkulaðiframleiðandinn hefur tilkynnt að tekjur félagsins námu 45 milljörðum dollara árið 2021, sem jafngildir 6.000 milljörðum íslenskra króna. Mars er því búið að taka fram úr fyrirtækjum eins og Coca-Cola þegar kemur að tekjum. Financial Times greinir frá.
Frá því að Reid tók við fyrirtækinu árið 2014 hafa tekjur fyrirtækisins aukist um meira en 50%, en árstekjur árið 2014 námu 28 milljörðum. Hann hefur lagt aukna áherslu á framleiðslu hollari matvæla auk vara sem nýtast í dýralækningar.
Mars er eitt stærsta félag heims sem er í einkaeigu, og er það í eigu samnefndrar fjölskyldu, sem er sú þriðja ríkasta í heimi á eftir Walton- og Koch fjölskyldunum.