Stjórn Símans ákvað í gær að veita forstjóra og tveim framkvæmdastjórum kauprétt að samtals 22.500.000 hlutum í félaginu, eða sem samsvarar um 0,85% af útgefnu hlutafé Símans.
Af þeim fær María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans, kauprétt að samtals 11.250.000 hlutum.
Vésteinn Gauti Hauksson framkvæmdastjóri Auglýsingamiðlunar og Birkir Ágústsson framkvæmdastjóri Miðla fá kauprétt á 5.625.000 hluti hvor.
Samkvæmt Kauphallartilkynningu frá Símanum byggir ákvörðunin á samþykkt aðalfundar frá mars 2023 en kaupréttarsamningunum er ætlað að samtvinna hagsmuni starfsmanna og félagsins til lengri tíma.
„Veittur er kaupréttur á hlutabréfum á grunnverðinu ISK 12,31 fyrir hvern hlut. Grunnverð skal vera eigi lægra en vegið meðalverð með hluti félagsins síðustu tíu heilu viðskiptadaga á aðalmarkaði Nasdaq Ísland með hluti félagsins fyrir úthlutun kauprétta.“
Dagslokagengi Símans var 12,3 í gær en gengi fjarskiptafélagsins hefur hækkað um rúm 28% á árinu.
Kauprétturinn ávinnst á þremur árum frá úthlutun (e. vesting time). Að ávinnslutímabili loknu verða kaupréttir nýtanlegir í þremur áföngum, sem hefjast í kjölfar birtingar ársuppgjörs félagsins ár hvert á árunum 2028 - 2030.
Samkvæmt tilkynningu frá Símanum getur kaupréttarhafi nýtt þriðjung kaupréttar í kjölfar birtingar ársuppgjörs eða hálfsársuppgjörs félagsins innan hvers tímabils, og getur frestað nýtingu áunnins kaupréttar til næsta nýtingartímabils.
Heildarfjöldi útistandandi kauprétta sem Síminn hefur veitt stjórnendum og tilteknum lykilstarfsmönnum sínum nemur nú 69.375.000 hlutum, eða um 2,62% hlutafjár í félaginu.
Alls er um að ræða 19 starfsmenn. Heildarkostnaður félagsins vegna útistandandi samninga út nýtingartímann er áætlaður um 90 milljónir og er þá byggt á reiknilíkani Black-Scholes.