Stjórn Símans ákvað í gær að veita for­stjóra og tveim fram­kvæmda­stjórum kauprétt að sam­tals 22.500.000 hlutum í félaginu, eða sem sam­svarar um 0,85% af út­gefnu hluta­fé Símans.

Af þeim fær María Björk Einars­dóttir, for­stjóri Símans, kauprétt að sam­tals 11.250.000 hlutum.

Vé­steinn Gauti Hauks­son fram­kvæmda­stjóri Aug­lýsinga­miðlunar og Birkir Ágústs­son fram­kvæmda­stjóri Miðla fá kauprétt á 5.625.000 hluti hvor.

Sam­kvæmt Kaup­hallar­til­kynningu frá Símanum byggir ákvörðunin á samþykkt aðal­fundar frá mars 2023 en kaupréttar­samningunum er ætlað að sam­tvinna hags­muni starfs­manna og félagsins til lengri tíma.

„Veittur er kaupréttur á hluta­bréfum á grunn­verðinu ISK 12,31 fyrir hvern hlut. Grunn­verð skal vera eigi lægra en vegið meðal­verð með hluti félagsins síðustu tíu heilu við­skipta­daga á aðal­markaði Nas­daq Ís­land með hluti félagsins fyrir út­hlutun kauprétta.“

Dagsloka­gengi Símans var 12,3 í gær en gengi fjar­skipta­félagsins hefur hækkað um rúm 28% á árinu.

Kauprétturinn ávinnst á þremur árum frá út­hlutun (e. vesting time). Að ávinnslutíma­bili loknu verða kaupréttir nýtan­legir í þremur áföngum, sem hefjast í kjölfar birtingar árs­upp­gjörs félagsins ár hvert á árunum 2028 - 2030.

Vésteinn Gauti Hauksson og Birkir Ágústsson
Vésteinn Gauti Hauksson og Birkir Ágústsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sam­kvæmt til­kynningu frá Símanum getur kaupréttar­hafi nýtt þriðjung kaupréttar í kjölfar birtingar árs­upp­gjörs eða hálfsárs­upp­gjörs félagsins innan hvers tíma­bils, og getur frestað nýtingu áunnins kaupréttar til næsta nýtingar­tíma­bils.

Heildar­fjöldi útistandandi kauprétta sem Síminn hefur veitt stjórn­endum og til­teknum lykil­starfsmönnum sínum nemur nú 69.375.000 hlutum, eða um 2,62% hluta­fjár í félaginu.

Alls er um að ræða 19 starfs­menn. Heildar­kostnaður félagsins vegna útistandandi samninga út nýtingar­tímann er áætlaður um 90 milljónir og er þá byggt á reiknilíkani Black-Scho­les.