Rússneska ríkisstjórnin hefur skipað ráðherra frá Tsjetsníu til að reka dótturfyrirtæki franska jógúrtframleiðandans Danone. Yakub Zakriev, sem mun reka fyrirtækið, er aðstoðarforsætisráðherra og landbúnaðarráðherra Tsjetsníu. Hann er einnig sagður vera frændi Ramzan Kadyrov, leiðtoga Tsjetsníu.

Yfirvöld í Rússlandi þjóðnýttu á dögunum bæði fyrirtækin sem sjá um að framleiða vörur fyrir Danone og Carlsberg. Yfirtakan er í samræmi við tilskipun Vladímírs Pútíns um að þjóðnýta fyrirtæki sem hafa tengsl við „óvingjarnlegar þjóðir“.

Bæði Danone og Carlsberg voru í miðju ferli við að selja starfsemi sína í Rússlandi en mörg vestræn fyrirtæki hafa yfirgefið Rússland eftir innrásina í Úkraínu.

Á sama tíma hefur Taimuraz Bolloev, gamall vinur Pútín, fengið það hlutverk að reka dótturfyrirtæki Carlsberg, Baltika Breweries.

Í tilkynningu segir Carlsberg að fyrirtækið hafi ekki lengur yfirráð yfir rekstri Baltika Breweries og að breytingin hafi verið gerð án vitundar eða samþykkis Carlsberg Group.