Framboð íbúða til sölu á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist hratt á undanförnum misserum. Þannig hefur framboðið aukist um 45% á milli mánaða, farið úr 700 íbúðum í lok júlí í 1.013 íbúðir núna í lok ágúst. Þetta kemur fram í greiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar.

Þetta er í fyrsta sinn frá vori 2021 þar sem fleiri en þúsund íbúðir eru til sölu á höfuðborgarsvæðinu. Lægst fór framboð íbúða í byrjun febrúar síðastliðnum þegar aðeins 437 íbúðir voru til sölu, en í maí 2020 voru ríflega 2.200 íbúðir auglýstar til sölu.

Í nágrannasveitarfélögunum eru 409 íbúðir til sölu, en þær voru 323 fyrir mánuði og aðeins rétt rúmlega 200 í byrjun maí. Annars staðar á landsbyggðinni eru 371 íbúðir til sölu en þar hefur íbúðum fjölgað hægar, að því er kemur fram í greiningunni.

Framboðsaukningin er einkum til komin vegna eldri íbúða, en framboð á nýjum íbúðum hefur vaxið hægar. Aukið framboð er því ekki hægt að skýra með auknu framboði nýrra íbúða heldur er líklegasta skýringin sú að hægt hafi á sölu vegna minnkandi eftirspurnar í kjölfar vaxtahækkana og strangari skilyrða á lántöku.