Þorlákur Marteinsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Verkfærasölunnar, er tólfti einstaklingurinn á lista yfir þá sem voru með hæstar fjármagnstekjur árið 2022, með rúmlega milljarð króna. Þorlákur átti allt hlutafé í Verkfærasölunni þegar fyrirtækið var selt til Rubix í fyrra.
Verkfærasalan, sem var stofnuð árið 1997, starfrækir í dag þrjár verslanir og selur vélar, rafmagnsverkfæri, handverkfæri og fleira frá framleiðendum á borð við Milwaukee. Velta Verkfærasölunnar var rúmlega 1,6 milljarðar króna á árinu 2021.
Í fimmtánda sæti listans er Sævar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hagblikk, en hann var með 661 milljón króna í fjármagnstekjur í fyrra. Fyrirtækið var að mestu í eigu Sævars þegar það rann inn í Fagkaup í fyrra.
Hagblikk, sem stofnað var af föður Sævars árið 1977, sérhæfir sig í málmsmíði ásamt innflutningi og sölu á efni og tækjum til loftræstikerfa og húsbygginga. Velta félagsins nam 449 milljónum króna árið 2021 og jókst um 21,4% milli ára. Félagið skilaði 52 milljóna króna hagnaði sama ár og námu eignir í árslok 515 milljónir.
Listi yfir þá 150 einstaklinga sem voru með hæstu fjármagnstekjurnar í fyrra birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast listann hér.