Talsverðar raskanir á aðfangakeðjum hafa fylgt kórónuveirufaraldrinum. Hrávöruverð hefur hækkað skarpt á skömmum tíma og fraktkostnaður margfaldast. Flöskuhálsar í virðiskeðjunni, sér í lagi í Kína, hafa haft í för með sér miklar tafir á vöruflutningum.

„Við erum að sjá fordæmalausar verðhækkanir á heimsmarkaðsverði á allri hrávöru, hvort sem það er til matvæla- eða almennrar iðnaðarframleiðslu,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, (SVÞ).

„Þetta eru einfaldlega bein áhrif af Covid sem hefur orsakað bresti í framleiðsluferlinu, hvar sem borið er niður. Þetta ástand hefur valdið vöntun í ákveðnum vöruflokkum með reglubundnu millibili.“ Hann nefnir sem dæmi tugprósenta hækkanir á lykilvörum í matvælaframleiðslu, líkt og hveiti, sykri og sojabaunum, ásamt iðnaðarvörum á borð við kopar, ál, járn og stál.

Verðbólga hefur hækkað hjá stórum nágrannaþjóðum á síðustu mánuðum og hefur í mörgum tilvikum ekki verið hærri í meira en áratug, þar á meðal í Bandaríkjunum og Þýskalandi. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri ræddi við Viðskiptablaðið í síðustu viku um hvað hrávöruverðbólga væri erfið viðureignar. Andrés segir útlit fyrir að verðbólguþrýstingur vegna þessa utanaðkomandi þátta muni aukast.

„Við óttumst að það verði áfram þrýstingur á verðlag vegna innfluttrar verðbólgu sem Seðlabankinn hefur takmörkuð tól og tæki til að bregðast við,“ segir Andrés. Hann bendir á að alþjóðlegir greiningaraðilar, þar á meðal Alþjóðabankinn, telji áhrifin af þessum miklu hækkunum á hrávöruverði ekki vera komin fram að fullu.

Óttast tafir á afhendingu jólavarnings

Þá hefur fraktkostnaður á milli heimsálfa hækkað verulega frá því að faraldurinn hófst. SCFI vísitalan, sem heldur utan um fraktkostnað á helstu flutningaleiðum til Sjanghæ, hefur hækkað um 80% frá byrjun apríl síðastliðnum og rúmlega fimmfaldast frá miðju síðasta ári. Nærri 30% af framleiðslu heims fara fram í Kína og þar er að finna sjö afkastamestu hafnir heims. Greint hefur verið frá því að áhafnir skipa þurfa í mörgum tilvikum að vera viku í sóttkví áður en þeim er leyft að leggja að bryggju. Auk þess hefur hægst nokkuð á tollgæslu og hafnarþjónustu.

Andrés segir að greiningaraðilar séu á einu máli um að stóru alþjóðlegu skipafélögin hafi misreiknað áhrifin af Covid í upphafi faraldursins. Þau hafi gert ráð fyrir eftirspurnarfalli á almennum neysluvörum og því gripið til þeirra ráða að afsetja umtalsvert magn af flutningaskipum.

Aftur á móti jókst eftirspurn eftir flutningi á varningi á milli heimsálfa, meðal annars vegna aukinnar netverslunar. Það geti verið allt að þriggja ára ferli að jafna framboðið á flutningaskipum og því megi gera ráð fyrir að nokkur tími muni líða þar til ástandið á flutningamarkaði kemst í eðlilegt horf, að sögn Andrésar. Verslunarfyrirtæki fylgist nú grannt með stöðu mála fyrir jólavertíðina.

„Við heyrum sífellt af áhyggjum sem stjórnendur hafa vegna tafa á afhendingu hefðbundins jólavarnings. Næstu tveir mánuðir eru lykilmánuðir hjá flestum verslunarfyrirtækjum innan okkar vébanda. Ef þau verða fyrir vöruskorti þá getur það augljóslega haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur þessa fyrirtækja.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .