Verkalýðsfélög starfsmanna bresku póstþjónustunnar Royal Mail og járnbrautarstarfsmanna hafa frestað fyrirhuguðum verkföllum til að sýna Elísabetu Bretadrottning, sem lést í gær, og fjölskyldu hennar virðingu. BBC greinir frá.

Verkfall starfsmanna breska póstsins átti að hefjast í dag og til stóð að verkfall járnbrautarstarfsmanna hjá RMC verkalýðsfélaginu myndi fara fram 15. og 17 september næstkomandi. Aslef, verkalýðsfélag lestarstjóra, frestaði einnig verkfalli sem átti að fara fram 15. september.

Network Rail hefur staðfest að lestarferðir verði samkvæmt áætlun í næstu viku þar sem verkföllum hefur verið frestað. The Rail Delivery Group, hagsmunasamtök lestarfyrirtækja, hrósaði ákvörðun verkalýðsfélaganna nú þegar breska þjóðin syrgir drottninguna.