Varasjóður Spron átti 15 milljarða króna um mitt ár 2007. Stærsti hluti þeirrar fjárhæðar varð að hlutabréfaeign í Spron við hlutafélagavæðingu hans. Samfélagssjóðurinn Spron ses var stofnaður utan um þá eign, sem er verðlaus í dag.  Á þorláksmessu var send út fréttatilkynning um að Spron ses hefði úthlutað um 340 milljónum króna til ýmissa mennta-, menningar- og góðgerðarmála. Um var að ræða restina af því fjármagni sem sjóðurinn átti. Í sömu tilkynningu var sagt frá því að í kjölfar þessarrar úthlutunar hafi sjóðnum verið slitið.

Varð til við hlutafélagavæðingu

Samfélagssjóðurinn Spron ses varð til þegar Spron var breytt í hlutafélag á árinu 2007. Áður en sú breyting á rekstarformi Spron átti sér stað hafði ses-sjóðurinn verið svokallaður varasjóður sparisjóðsins. Í slíkan sjóð hafði verið lagður sá hagnaður af starfsemi Spron sem ekki var greiddur út sem arður til stofnbréfseigenda. Þessi háttur hafði verið hafður á í áratugi.

Í varasjóðnum voru um 15 milljarðar króna um mitt ár 2007. Þegar Spron var skráð í Kauphöllina í október sama ár var ákveðið að varasjóðurinn breyttist í samfélagsjóð.  Eign hans varð að mestu að hlutabréfum í Spron og  fyrir vikið varð hann stærsti einstaki eigandi hins nýja hlutafélags með 15% eignarhlut.

Stjórnað af stjórn og stjórnendum Spron

Samfélagssjóðurinn var sjálfseignarstofnun sem átti að „stuðla að vexti og viðgangi félagsins“ auk þess sem hann útdeildi styrkjum til ýmissa aðila á starfssvæði Spron. Sjóðnum var þó stjórnað af helstu stjórnendum og stjórnarmönnum Spron, en meðal þeirra sem sátu í stjórn hans voru Guðmundur Hauksson sparisjóðsstjóri og Hildur Petersen stjórnarformaður Spron.

Virði bréfa hrynur

Þegar Spron var skráð á markað var gengi bréfa í félaginu 16,8 krónur á hlut. Það hríðféll hins vegar mjög fljótlega og strax í lok árs 2007 hafði virði þeirra bréfa sem ses-sjóðurinn var látinn kaupa rúmlega helmingast. Verðið hélt síðan áfram að lækka allt þar til Spron var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu (FME) í mars 2009.

Við það urðu nánast allar eignir ses-sjóðsins verðlausar, enda hafði hann verið látinn kaupa hlutabréf í Spron fyrir nánast allt fé sitt. Eftir stóðu um 340 milljónir króna sem úthlutað var til ýmissa velferðarmála núna rétt fyrir jól.

Stjórnendurnir seldu og græddu

Þann 17. júlí 2007 var ákvörðun tekin um að skrá Spron á markað. Frá þeim tíma og fram undir miðjan ágúst sama ár opnaðist svokallaður „gluggi“ sem heimilaði viðskipti með stofnbréf í sparisjóðnum áður en honum yrði breytt í hlutafélag. Í þessum „glugga“ urðu gríðarlega umfangsmikil viðskipti, þ.e. margir stofnbréfseigendur seldu hluti sína og nýjir fjárfestir keyptu bréf.

Á árinu 2008, þegar bréf í Spron voru í frjálsu falli, fóru margir þeirra sem keyptu stofnbréf í „glugganum“ að velta fyrir sér hverjir hafi verið að selja þau. Síðar kom í ljós að stjórnendur og stjórnarmenn í Spron eða makar þeirra voru sérstaklega duglegir við þá iðju.

60% seljenda voru innherjar

Viðskiptablaðið greindi frá því í febrúar síðastliðnum að 60% allra bréfa sem seld voru í „glugganum“ hefðu verið frá þessum aðilum sem í öllum tilfellum bjuggu yfir innherjarupplýsingum. Markaðinum var þó ekki tilkynnt um að þessir aðilar hefðu selt bréf sín og það var ekki fyrr en kaupandi höfðaði einkamál til að fá að vita hver seljandi bréfa hans var að málið fór að upplýsast.

Gunnar Þór Gíslason, þá stjórnarmaður í Spron, og félag hans, Sundagarðar ehf., seldu langmest af bréfum, eða fyrir um tvo milljarða króna að markaðsvirði. Stjórnarmennirnir Hildur Petersen, þá stjórnarformaður Spron, og Ásgeir Baldurs seldu fyrir tugi milljóna króna auk þess sem að minnsta kosti fimm starfsmenn Spron og makar þeirra gerðu það einnig. Þar munar mest um viðskipti Áslaugar Bjargar Viggósdóttur, eiginkonu Guðmundar Haukssonar, fyrrverandi forstjóra Spron. Hún seldi fyrir nokkra tugi milljóna króna að markaðsvirði.

Til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild

Ríkissaksóknari fól efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra snemma árs 2009 að rannsaka sölu þeirra Gunnars, Hildar og Ásgeirs á bréfum sínum í Spron til að athuga hvort þau hefðu gerst sek um fjársvik. Síðan hafa fleiri mál bæst við rannsóknina og er embættið nú að rannsaka að minnsta kosti fjögur aðskilin mál sem varða viðskipti með stofnfjárbréf í „glugganum“. Rannsókn málanna er þó ekki lokið og því liggur ekki fyrir hvort þau muni leiða til ákæru.